Steingrímur J.: Kosningabaráttan 2013 sú næst dýrasta í Íslandssögunni
Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, kallar síðustu kosningabaráttu til Alþingis einhverja þá dýrustu í Íslandssögunni og þjóðin verði lengi að borga af henni.„Síðustu kosningum var stolið eins og Trölli stal jólunum. Loforð Framsóknarflokksins voru slík að engu öðru var hægt að koma að," sagði Steingrímur J. Sigúfsson, fyrrum formaður vinstri grænna og fjármálaráðherra á opnum fundi flokksins á Egilsstöðum í síðustu viku.
Steingrímur kallaði kosningabaráttuna í fyrravor þá „næst dýrustu" í sögu Alþingis og byggði það á fyrirheitum ríkisstjórnarflokkanna um leiðréttingu húsnæðisskulda og lækkun skatta. „Stærsti reikningurinn fer langt fram í framtíðina."
Létti að sjá endanlega útfærslu skuldaleiðréttinga
Steingrímur var sérstaklega gagnrýninn á framsóknarmenn. „Þeir ætluðu að finna pening hjá vondu hrægömmunum en taka í staðinn 80 milljarða úr ríkissjóði," sagði Steingrímur sem jafnframt talaði um „ævintýralega fölsun" í fjárlagafrumvarpi næsta árs í tengslum við séreignasparnaðinn.
„Mér létti þó við að sjá skuldaleiðréttingarnar trimmaðar niður í endanlegri útgáfu. Það hefði kveikt í hagkerfinu að fara með 300 milljarða út í það."
Erfitt að taka ekki þátt í loforðadansinum
Steingrímur sagði vinstri græna ekki hafa viðhaft „stórkostleg kosningaloforð" árið 2009 og ekki tekið þátt í „loforðadansinum 2003" sem væri sú dýrasta.
„Það var erfitt að taka ekki þátt í kórnum þegar 3-4 félagar mínir við borðið kepptust við að yfirbjóða hvern annan. Menn lofuðu húsnæðislánum, skattalækkunum og fleiru sem þeir stóðu því miður við og átti þátt í hruninu."
Steingrímur sagði erfitt að taka þátt í baráttunni þegar menn ýmist gæfu „glórulaus" loforð eða „stæðu við orð sín sem endaði illa."
Gengisfellir stjórnmálin að kjósa um alla á fjögurra ára fresti
Hann kallaði enn fremur eftir ríkari pólitískri ábyrgð þingmanna. „Það gengisfellir stjórnmálin að menn fái frítt spil á fjögurra ára fresti. Þegar menn kjósa þriðjung þingmanna upp á nýtt í hverjum kosningum þá þurfa þeir sem lofuðu ekki að standa við stóru orðin.
Það er hættulegt að byggja svona skammtímahugsun inn í stjórnmálin. Þegar spunadoktorar og auglýsingastofur bætast við verður þetta ekki félegt eins og dæmin sanna."
Steingrímur velti upp hugmyndum eins og að ekki væri kosið um öll þingsætin í einu heldur væri hægt að kjósa um hluta þeirra í einu eins og gert er víða erlendis.
Vill skerpa hugmyndafræðina
Hann viðraði einnig áhyggjur sínar af minnkandi kosningaþátttöku sem hann sagði stjórnmálamenn þurfa að „taka alvarlega." Hann var ekki á því að menn hefðu brugðist rétt við til þessa.
„Menn hafa gefist upp fyrir áróðri um að stjórnmálin séu leiðinleg og fara út í aðgerðir sem magna vandann, svo sem að láta auglýsingastofurnar og spunadoktorana fá viðskipti við að markaðssetja stjórnmálin.
Vandinn er að línurnar milli flokka eru of óskýrar. Menn eru hættir að tefla fram skýrum málefnalegum valkostum. Umræðan snýst of mikið um ódýr loforð og trix sem reynast misvel og þá finnst fólki það hafa verið haft að fíflum.
Ég vil skerpa aftur hugmyndafræðileg skil og hvar menn standa. Það er munur á því hvers konar samfélagsgerð menn berjast fyrir."
Menn þurfa alltaf að taka afstöðu
Hann skaut föstum skotum að nýju framboðunum, Bjartri framtíð og Pírötum, á fundinum. „Það er engin lausn að hinir nýju segist vera öðruvísi, að þeim leiðist gömul vinnubrögð og séu sammála.
Síðan er kosið og hvað gerist næst? Eftir kosningar þurfa menn að taka afstöðu. Það er ekki endalaust hægt að sitja hjá. Og þegar menn taka afstöðuna eru þeir komnir í pólitík.
Menn hafa ólíka afstöðu til grundvallarhluta eins og hvernig samfélag þeir byggja."