Steingrímur J.: Við hækkuðum ekki skatta af mannvonsku
Steingrímur J. Sigfússon, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi, lýsir miklum áhyggjum af þeirri stefnu sem sitjandi ríkisstjórn hafi markað með fjárlagafrumvarpi næsta árs. Hann segir greinilegt að menn séu lagðir aftur af stað til áranna 2003-7.„Það er mikil pólitík sem birtist í fjárlagafrumvarpinu. Stærsta glíman er alltaf um til hvers skattar séu og í hvað við ætlum að nota þá.
Við erum aftur komin með ríkisstjórn sem hefur það sem sjálfstætt markmið að lækka hlutdeild hins opinbera í þjóðarkökunni," sagði Steingrímur á opnum fundir hreyfingarinnar á Egilstöðum í síðustu viku.
„Við höfum gert okkar mistök"
Steingrímur gegndi stöðu fjármálaráðherra framan af í síðustu ríkisstjórn sem sætti harði gagnrýni fyrir hækkun skatta strax eftir hrun.
„Við vorum vissulega dugleg að hækka skatta en við gerðum það ekki af mannvonsku eða tilefnislausu. Það var óhjákvæmilegt til að afstýra því að þetta færi á hausinn og við þyrftum þá minna að skera niður.
Árin áður var búið að lækka tekjugrunna samfélagsins þannig að þegar bólukerfið hrundið stóðu tekjustofnarnir eftir það laskaðir að þeir stóðu ekki undir velferðarkerfinu.
Við höfum gert okkar mistök, hvað þá ég sem er sekur um margt af sumra dómi í þessu landi. Ég neita því ekki að ég var oft andvaka yfir að þetta væri komið yfir hófleg mörk en áttum við að halda áfram að safna skuldum," spurði Steingrímur á fundinum.
Þarf kannski að dusta rykið af gömlum greinum
Hann gagnrýndi texta fjárlagafrumvarpsins sem hann sagði skrifaðan eins og aðeins „vondir menn" legðu þá á. „Það er ekki rætt um tilgang skatta sem er að afla fjár til sameiginlegra verkefna eða tekjujöfnunar."
Steingrímur sagði skattastefnuna snúast um hvernig samfélag menn vildu byggja. Hann sagði Íslendinga vilja norrænt velferðarsamfélag en til að standa undir því verði að afla tekna með sköttum. Hann sagði batamerki hafa komið fram í hagkerfinu og meiri árið 2013 en margir hefðu viljað viðurkenna.
„Ég hélt að við myndum eiga lengra í land á þessum tímapunkti en ástandið er brothætt. Við getum verið fljót út af aftur ef menn halda ekki rétt um stýrið.
Árið 2013 kom betur út en það var ekki áhugi fyrir að auglýsa það upp. Ég býst við að árið 2014 verði slakara en spár gerðu ráð fyrir. Ég spái því að Hagstofan lækki hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár og það næsta í nóvember því efnahagurinn í Evrópu er svo slakur og nýríku löndin (BRIC) draga ekki lengur vagninn."
Afkoma ríkisins verður í járnum næstu þrjú ár því menn ætla ekki að eiga borð fyrir báru heldur nota hagvöxtinn til að búa til svigrúm til að lækka skatta fremur en fá meira inn í ríkissjóð til að laga þar sem þörfin er mest. Ég skil ekki hvers vegna ekki var hægt að ná samkomulagi um jafnvægi og mynda afganga hjá hinu opinbera sem hefði farið til að styrkja veikustu innviðina."
Þetta er spurning um samfélagsgerðina og hvert við förum. Menn eru lagðir af stað heim aftur með pólitík áranna 2003-7," sagði Steingrímur sem taldi sig sjá „sömu veikleikamerki" í hagkerfinu og þá, viðskiptahalla við útlönd, seðlabanka og ríkisstjórn sem rói sitt í hvora áttina, neysluhvetjandi aðgerðir ríkisstjórnarinnar í formi skuldaleiðréttingar og fasteignabólu í Reykjavík.
„Maður þarf kannski að fara að dusta rykið af gömlum greinum og vara við. Það er ekki eins og maður kunni ekki það hlutverk að vera fúll á móti."
Þensla á landsbyggðinni hefur aldrei sett landið á hausinn
Hann sagði þensluna á höfuðborgarsvæðinu vera einn helsta óvin landsbyggðarinnar. „Ofþensla á höfuðborgarsvæðinu sem sogar allt til sín hefur alltaf verið mesti óvinur landsbyggðarinnar. Maður óskar þess ekki að illa gangi í Reykjavík en ofþensla þar hefur alltaf verið undanfari þess að illa fari í íslenskum efnahagsmálum. Þensla á landsbyggðinni hefur aldrei sett Ísland á hausinn.
Ég heyrði það frá stóru fyrirtæi hér á svæðinu í dag að starfsmannaveltan væri að aukast á nýjan leik. Fólk greiðir atkvæði með fótunum þegar vinnan býðst annars staðar. Samkeppnin um hæft vinnuafl er að aukast."
Tárvotar stóreignarfjölskyldur
Steingrímur setti spurningamerki við ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að „sleppa út milljarðatekjum" með því að lækka auðlindagjald og afnema auðlegðarskatt.
Hann rifjaði upp fund sem hann hefði setið á Hótel Loftleiðum um auðlegðarskattinn þegar hann var fjármálaráðherra.
„Ég sá þar framan í helstu stóreignarfjölskyldur landsins og það var allt í tárum og volæði. Ég sagði við þau: „Ég veit að þið eruð til í að byggja upp með okkur, er ekki betra að þeir borgi sem hafa eitthvað til að borga með?"
Við vildum byggja nýjan Landsspítala fyrir auðlegðarskatt. Það hefði verið hægt ef ríkustu fjölskyldurnar hefðu borgarð auðlegðarskattinn í fimm ár í viðbót."
Besta fjárfesting sem Þjóðverjar hafa gert
Steingrímur var á fundinum spurður út í afstöðu sína til þess að kaupa upplýsingar um einstaklinga frá erlendum skattaskjólum. Hann sagði að árið 2011 hefðu íslensk stjórnvöld fengið tilboð um slíkt en erfitt hefði verið að henda reiður á hvað væri í boði. Nú væri tilboðið „á alvarlegra stigi"
Tilboðin hefðu komið eftir heimsóknir skattrannsóknastjóra og sérstaks saksóknara til Lúxemborgar. „Það liggja margir þræðir þangað og áfram."
Að lokum hefðu verið gerðir upplýsingaskipta samningar við Lúxemborg. Slíkt hefði OECD líka gert við skattaskjól í karabíska hafinu en hægt gengi að fá upplýsingarnar.
Hann sagði menn framan af hafa verið á móti því að eiga við skattaskjólin en það hefði breyst þegar stórveldi á borð við Bretland og Bandaríkin fóru að sækja þangað upplýsingar.
„Þjóðverjar keyptu upplýsingar og fengu margfalt það sem þeir borguðu. Þeir segja þetta einhverja bestu fjárfestingu sem þeir hafi gert.“