Sölumet í fiskbúðinni: Er fyrst og fremst þakklátur

Eiki fisksali austurfrettÞað er nóg að gera hjá Eika í Kjöt og Fiskbúð Austurlands og það er greinilegt að íbúar á Héraði kunna að meta matseld hans því fyrir skemmstu sló Eiki sölumet í heitum mat í  búðinni.

„Þetta var rosalegur dagur við seldum 126 matarskammta og það var um 44 kg af kjöti sem rann í bakkana þennan dag. Öll tölfræði segir að þetta eigi ekki að vera hægt miðað við íbúafjölda. Þetta er æðislegt,“ segir Eiki í samtali við Austurfrétt.

Það fór ekki framhjá neinum þegar  Eiki skellti í lás og lokaði Kjöt- og fiskbúð Austurlands vegna heilsubrests  i ágúst síðast liðinum. Austurfrétt birti grein um lokunina og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Fólki fannst miður að búðinni skyldi vera lokað og tjáði sig hiklaust um það á netinu.  En aðeins 20 dögum eftir lokun opnað hann búðina aftur.

„Þetta er búið að ganga eins og í sögu og ég er meira en sáttur. Þetta eru þvílíkt góðar móttökur, enda leggjum við metnað í að hafa matinn flottan. Eins og í dag erum við með lambalæri beint af býli sem er fyrsta flokks kjöt. Það er engin afganganýting hér, þetta er bara alvöru steikur á lágmarksverði og það er greinilegt að fólk er að líka þetta.“

Veisluþjónusta

Vegna aukningar í matsölu víkkar Eiki út kvíarnar. "Já, nú er maður er að kaupa nýjar græjur til að hafa undan og það er allt á fullu. Var að fá nýjan ofn í morgun og er að kaupa nýjan sem kemur um miðjan mánuðinn svo ég geti verið með svona litla veisluþjónustu. Þá get ég eldað fyrir hópa og fyrirtæki og tekið að mér veislur, fermingar, ættarmót og fleira. Konan var einmitt að kvarta. Hún vildi fá nýjan bíl fyrir veturinn, þar sem sá gamli hangir varla saman. En ég lét ofninn ganga fyrir svo hún verður að vera á druslunni í vetur," segir Eiki glettinn.

„En án gríns, ég er gjörsamlega snortinn. Þessar  móttökur eru framar mínum björtustu vonum og ég er fyrst og fremst þakklátur. Fólkið er að skapa sér þessa verslun til frambúðar með þessu áframhaldi.“

 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.