Niðurskurður í Grunnskóla Stöðvarfjarðar: Ein af mörgum hugmyndum sem verið er að viðra
Eins og kom fram á ruv.is í gær hefur bæjarráð Fjarðabyggðar rætt hugmyndir um að börn á Stöðvarfirði eldri en 11 ára verði keyrð í aðra skóla í Fjarðabyggð. Þetta kom fram á fundi bæjarstjóra og fræðslustjóra með starfsfólki grunnskólans á Stöðvarfirði sem lauk síðdegis í gær.„Að venju á þessum árstíma er verið að vinna að fjárhagsáætlun sveitafélagsins og við keppumst við að láta endum ná saman. Þetta er bara ein af mörgum hugmyndum sem verið er að viðra, en við vissum að þessi hugmynd yrði viðkvæm og umdeild,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, Bæjarstjóri Fjarðabyggðar í samtali við Austurfréttir.
Verði af breytingunni myndi um helmingur barnanna í grunnskólanum fara í annan skóla í Fjarðabyggð.
„Hugmyndin gengur í stórum dráttum út á það að aka ellefu til sextán ára ára börnum yfir í skólann á Fáskrúðsfirði. Við erum að tala um átta börn í fimm til sex bekkjum. Og það eru tvær ástæður fyrir þessum vangaveltum. Önnur er að við myndum ná fram ákveðinni hagræðingu og hinsvegar er það faglegi þátturinn sem við verðum að skoða vel og hann fjallar um hvort við þurfum ekki hreinlega að ná börnunum okkar meira saman. Leyfa þeim að njóta þess að vera í stærri bekkjum og njóta þess að hafa meira val í námi, tómstundum og Íþróttum. „
Fólk ekki ánægt
Hvernig voru viðbrögðin á fundinum? „Eins og við máttu búast var fólk ekkert ánægt með þetta og ég hef fullan skilning á því. Skólinn spilar svo stórt hlutverk í samfélaginu og það kemur mér ekki á óvart að umræðan sé á móti þessum vangaveltum. Hún hefur samt orðið eins og það eigi að fara að loka öllum skólanum en það erum við ekki að fara að gera. Þetta verður rætt aftur á fundi hjá bæjarstjórn í dag og svo höfum við heilan mánuð til að skiptast á skoðunum áður en endanleg ákvörðun er tekin.
En hvað finnst þér persónulega, er þetta eitthvað sem þú vilt sjá gerast eða er þetta neyðarúrræði? „Þetta er ekki neyðarúrræði, en ég held við verðum að hugsa meira í stíl við það að við erum fjölkjarna sveitafélagi. Fjarðabyggð samanstendur af sex hverfum og við verðum að hugsa samfélagið okkar þannig að við getum til dæmis ekið elstu börnunum á milli skólanna sé það hagkvæmt, og haft meiri sveigjanleika í rekstri stofnana almennt. Við þurfum að hugsa til framtíðar hvernig best er að reka heilstætt skólasamfélag í Fjarðabyggð. Við þurfum líka að komast út úr því að horfa bara á þann stað sem við búum á því við erum hluti af stærra samfélagi, „segir Páll
Umræðan að hefjast
Umræðan er á byrjunarstigi. „Við verðum að átta okkur á því að það er ekki búið að taka neinar ákvarðanir. Umræðan er að hefjast. Og mér finnst mikilvægt að það komi fram að við höfum heilan mánuð til að ræða þetta og komast að niðurstöðu. Ég veit að þetta er viðkvæmt mál og ég hef fullan skilning á því, en þetta er eitthvað sem við verðum að rýna í og skoða betur,“ segir bæjarstjórinn að lokum