Bíllinn kom á stökkinu yfir lækinn: Vorum vissir um að hann kæmi inn um gluggann

arekstur„Þetta gerðist svo fljótt, við biðum eftir því að bíllinn kæmi inn um rúðuna“, segir Hákon Guðröðarson, íbúi á Norðfirði, í viðtali við mbl.is í dag.

Hann varð ásamt eiginmanni sínum Hafsteini Hafsteinssyni vitni af því í morgun þegar bíll kom skyndilega yfir grasflöt og læk við heimili þeirra og hafnaði því næst á kyrrstæðri jeppabifreið í heimreiðinni. Í bifreiðinni var eldri maður sem fékk aðsvif og missti stjórn á bifreið sinni.

Hákon segir að þeir Hafsteinn eigi ekki bíl og því sé óvenjulegt að bifreið standi á bílastæðinu á þess¬um tíma dags. Hann hafi skotist heim úr vinnunni á vinnubíl fyrir hádegi og aðeins ætlað að dvelja þar í stuttan tíma.

„Allt í einu er bíll að koma inn um eldhúsgluggann hjá okkur, kemur á stökkinu yfir lækinn á þvílíkri ferð,“ segir Hákon. Þeir Hafsteinn stóðu við eldhúsgluggann og voru sannfærðir um að bíllinn kæmi inn um gluggann. Þótt vinnubíllinn sé vissulega töluvert skemmdur segir Hákon að mun verr hefði getað farið ef bíllinn hefði hafnað á húsinu.

Hákon og Hafsteinn hjálpuðu manninum út úr bílnum og inn í húsið og hlúðu að honum þar til lögregla og sjúkraflutningamenn komu á vettvang.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem bíl er ekið upp á bíl einhvers í fjölskyldu Hákons því móðir hans átti bílinn sem keyrt var upp á á bílastæði í miðbæ Egilsstaða í september.

Það var mbl.is sem greindi frá.

Mynd: Sigurður Aðalsteinsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar