Fyrsti Austfirðingur ársins fæddur
Fyrsti Austfirðingur ársins fæddist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupstað klukkan 7:45 í gærmorgun, mánudaginn 5. janúar. Það er stúlka sem vegur rúm fjögur kíló og er 53 sentimetrar á lengd.„Þetta gekk ótrúlega vel. Ég missti vatnið um þrjú í fyrrinótt og kom með sjúkrabíl hingað á Neskaupstað þar sem það var ekki vitað hvort hún væri skorðuð. Allt gekk vonum framar og hún kom svo í heiminn rétt fyrir átta í gærmorgun,“ segir Aníta Linda Jónsdóttir móðir litlu stelpunnar í samtali við Austurfrétt.
Aníta Linda og maðurinn hennar Stefan Schulz búa á Egilsstöðum og eiga fyrir dótturina Emilý Rós sem er að verða tveggja ára. Móður og dóttur heilsast vel, eins og Aníta segir sjálf „Við erum rosa sprækar.“
Mynd: Aníta Linda með nýjasta Austfirðinginn.