Höskuldur Þór: Afar sérstakt að þurfa að standa í stappi um hverja krónu við ISAVIA
Þingmaður Framsóknarflokksins segir það sérstakt hversu tregir stjórnendur ISAVIA séu að nota hagnað stofnunarinnar til að byggja upp aðra flugvelli en í Keflavík. Stuðningur við millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll virðist vera farinn að berast úr fleiri áttum en áður.„Mér finnst afar sérstakt eftir síðustu viðskipti við ISAVIA að þurfa að standa í stappi við þessa stofnun, sem er í eigu ríkisins, um hverja einustu krónu," sagði Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins á opnum fundi á Egilsstöðum í síðustu viku.
Ummæli Höskuldar féllu undir umræðu um Egilsstaðaflugvöll og nauðsyn fyrir ferðaþjónustuna að hafa fleiri gáttir inn í landið heldur en eingöngu Keflavíkurflugvöll.
ISAVIA sér um og rekur flugvelli landsins og er á bakvið 20 milljarða framkvæmdir í Keflavík sem Höskuldur segir vera af gríðarlegum hagnaði af millilandaflugi.
Hann segir stofnunina hins vegar til þessa hafa neitað að nota hagnaðinn í aðra flugvelli á grundvelli reglna Evrópusambandsins. Höskuldur hélt því fram að Norðmenn og Finnar gerðu það og við gerð síðustu fjárlaga hefðu 500 milljónir af hagnaðinum verið færðar yfir í innanlandsflugvelli.
„Við höfum engar athugasemdir fengið enn og ég á ekki von á þeim."
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði stuðning við flug um Egilsstaðaflugvöll fara vaxandi, hann hefði meðal annars borist af fundi með Eyfirðingum fyrr um daginn.
Hann benti á að flugfélög sem fljúga frá Evrópu gætu náð fram sparnaði með flugi í Egilsstaði þar sem flugið sé styttra en gallinn sé að flugvélaeldsneyti sé dýrara á Egilsstöðum.
Innanlandsflugið var einnig til umræðu en Höskuldur hamraði á mikilvægi þess að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram á núverandi stað. „Það er bara unnið í eina átt, sama hvað er sagt um Rögnunefndina eða annað."