Snælduvitlaust veður á Möðrudalsöræfum: Lokunarhliðið brotnaði af
Björgunarsveitarmenn af Jökuldal eru á leið upp á Möðrudalsöræfi að sækja bíla sem eru í vandræðum þar. Lokunarskilti við Skjöldólfsstaði brotnaði af í veðurofsanum.„Þegar þeir losuðu læsinguna sem heldur því föstu og ætluðu að fara að loka fauk skiltið upp og brotnaði af," segir Sindri Freyr Sigurðsson, formaður björgunarsveitarinnar Jökuls.
Ákveðið var að merkja leiðina um fjöllin ófæra upp úr hádegi. Björgunarsveitarmenn voru sendir til að loka en skiltið gaf sig. Bíll frá Vegagerðinni stendur þar vaktina á meðan björgunarsveitarmenn afhafna sig uppi á heiði.
„Það er snælduvitlaust veður þar og þangað voru komnir 4-5 bílar áður en leiðinni var lokað"
Ófært er um Fjarðarheiði og Vopnafjarðarheiði, þungfært og skafrenningur um Vatnsskarð og skafrenningur á Oddsskarði. Stórhríð er frá Fáskrúðsfirði og suður að Breiðdalsvík.
Veðurstofan spáir norðan 15-25 m/s fram á kvöld. Hvassast verður út við ströndina.
Mynd: Örlygur Óðinn Svavarsson