Ekkert ákveðið um útibú sparisjóðsins á Breiðdalsvík og Djúpavogi

djupivogur mai14Ekkert hefur enn verið ákveðið um framtíð útibúa Sparisjóðs Vestmannaeyja á Breiðdalsvík og Djúpavogi eftir að Landsbankinn yfirtók sjóðinn í gær eftir áhlaup innistæðueigenda.

„Fólk frá okkur hefur farið á alla staði og rætt við starfsfólkið. Við erum að skoða stöðuna og meta en það er ekkert komið í ljós um hvað verður," sagði Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans í samtali við Austurfrétt í dag.

Hann var þá staddur ásamt öðrum yfirmönnum bankans í Vestmannaeyjum að skoða aðstæður. Hann benti á að Landsbankinn og Sparisjóðurinn væru báðir með útibú á Höfn og Selfossi en þannig yrði ekki áfram.

„Síðan er spurning við gerum á Breiðdalsvík og Djúpavogi en það hafa engar ákvarðanir verið teknar varðandi starfsmannafjölda eða annað."

Þar starfa alls samtals sjö starfsmenn, fjórir á Djúpavogi og þrír á Breiðdalsvík.

Sparisjóður Vestmannaeyja keypti Sparisjóð Hornafjarðar og nágrennis sumarið 2006 en hafði átt hlut í honum nokkuð lengur. Þá hafði Sparisjóður Hornafjarðar átt í töluverðum erfiðleikum nánast samfleytt frá aldamótum.

Sparisjóður Hornafjarðar var stofnaður árið 1991 en bætti fljótt við afgreiðslu á Djúpavogi. Árið 2006 var útibú opnað á Breiðdalsvík og stækkað á Djúpavogi. Útibúin tvö voru undir útibúinu á Höfn.

Húsnæðið á báðum stöðum tilheyrði áður Landsbankanum en Sparisjóðurinn keypti þau árið 2006. Um leið hætti Landsbankinn starfsemi á báðum stöðum.

Landsbankinn er í dag með útibú á Vopnafirði, Egilsstöðum, Borgarfirði, Seyðisfirði, Reyðarfirði og í Neskaupstað. Útibúum á Stöðvarfirði, Fáskrúðsfirði og Eskifirði hefur verið lokað á síðustu árum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar