Fyrrverandi leiðtogi leikur jólasvein – Myndband

jolasveinn alcoaAusturfrétt hefur undir höndum myndband sem sýnir Ólaf Hr. Sigurðsson, fyrrum leiðtoga í kerskála Fjarðaáls og bæjarstjóri á Seyðisfirði leika jólasvein fyrir fyrrum undirmenn sína í kerskálanum. Ólafur segir að honum hafi verið sagt upp störfum eftir að myndbandið birtist.

„Til að gleðja nú mína gömlu vakt ákvað ég í samráði við leiðtoga, sem tekið hafði við af mér, að koma í heimsókn sem jólasveinn enda dregið nærri jólum. Hafði ég gert þetta árið áður og allir haft af því nokkurt gaman. Nú ég mætti á vaktina sem jólasveinn og færði vaktinni nammi og gos. Jafnframt var ég með svona smá jólasveinauppistand," skrifar Ólafur í grein sem birtist á Austurfrétt í síðustu viku.

Í myndbandinu sést hvernig hann, líkt og jólasveina er siður, misskilur og gerir grín að öllu í kringum sig. Jólasveinninn segir frá því jólasveinunum hafi verið sendur liðléttingur fyrir jólaösina, fyrrum leiðtogaræfill úr álverinu sem verið hefði til stórvandræða, sem hefði verið kalt og talað um velferð fólksins.

Leiðtoginn sé heilsufrík, hafi bara útbúið jólasveininn með epli og appelsínur, sem sé það sem hann borði helst meðan hann liggi í ljósabekknum.

Starfsmennirnir virðast hafa nokkuð gaman af uppátækinu, í það minnsta er töluvert hlegið í myndbandinu.

Í greininni segir Ólafur að upptakan hafi komist í hendur yfirmanna álversins sem ekki hafi verið jafn skemmt yfir henni.

„Nokkrum dögum síðar var ég svo kallaður niður í álver þar sem mér var tilkynnt að inn fyrir dyr þessa álvers kæmi ég ekki aftur. Einhverjir af toppunum hjá Fjarðaáli þóttust greina uppreisnartón í jólasveininum og að hann hefði gert grín að fyrirtækinu. Slíkt væri ekki líðandi.

„Nú skal það alveg viðurkennt að eitthvað í þessu jólasveinauppistandi mátti vafalaust túlka þannig að ég væri að gera grín að fyrirtækinu en aðallega var ég samt að gera grín að mér sjálfum," skrifar hann.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.