Treysta því að bankaþjónusta skerðist ekki
Sveitarstjórn Breiðdalshrepps treystir því að bankaþjónusta í byggðarlaginu skerðist ekki frekar en orðið er eftir yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Vestmannaeyja fyrir skemmstu. Þetta kemur fram í bókun frá síðasta sveitarstjórnarfundi.Þar er sparisjóðnum þakkað fyrir trausta þjónustu um árabil og Landsbankinn boðinn velkominn með von um að hann reki áfram útibú á Breiðdalsvík. Bent er á að samstarf sparisjóðsins og Íslandspósts um útibú hafi reynst íbúum „afar mikilvægt".
Sveitarstjórnarmennirnir vonast til að forsvarsmenn Landsbankans styðji við þá í uppbyggingu byggðarlagsins. „Fulltrúar sveitarstjórnar eru reiðubúnir að ræða þessi mál við forsvarsmenn Landsbankans hvenær sem er og treysta því að ekki verði dregið úr starfsemi útibúsins, heldur verði það byggt upp, meðal annars til að þjóna líka nágrannabyggðum og þar með verði endurvakin sú góða þjónusta sem Landsbanki Íslands veitti þessum byggðum um árabil."
Mynd: Hákon Hansson