Síðasti dagur atkvæðagreiðslu um verkföll í dag
Lokadagur atkvæðagreiðslu um verkföll Starfsgreinasambandsins er í dag en meðal þeirra sem greiða atkvæði eru félagar í AFLi.Greidd er atkvæði um allsherjarverkföll frá hádegi 30. apríl og síðan verkföll sem ná yfir dagana 6., 7., 19. og 20. maí. Ótímabundin vinnustöðvun hefst svo á miðnætti aðfaranótt 26. maí hafi samningar ekki tekist.
Verkföllin ná til félagsmanna í verkamannadeild AFLs sem starfa eftir almennum samningi við Samtök atvinnulífsins og þeirra sem starfa eftir samningum um veitinga- og gististaði eða hliðstæðri starfsemi.
Atkvæðagreiðslan er rafræn og fer fram á vef Starfsgreinasambandsins. Meðal baráttumála er að koma lægstu töxtum upp í 300 þúsund krónur innan þiggja ára og laun í útflutningsgreinum verði hækkuð sérstaklega.