Loðnuvertíðin gjöful Síldarvinnslunni
Hlutur Síldarvinnslunnar í nýafstaðinni loðnuvertíð var töluvert hærri en í fyrra.Alls landaði Síldarvinnslan 138.230 tonnum af loðnu á vertíðinni á móti 45.000 tonnum á síðustu vertíð.
Útgefinn heildarkvóti var mikill og markaðsverð á ýmsum afurðum hátt. Alls var 390 þúsund tonnum úthlutað til íslenskra loðnuskipa á vertíðinni, en er það töluverð aukning frá síðasta ári þegar úthlutaður nam einungis rúmlega 127 þúsund tonnum. Heildarverðmæti loðnunnar sem veiddist á vertíðinni og unnin var hérlendis nemur um 27 milljörðum króna.
Heildarafli skipa Síldarvinnslunnar var 51.244 tonn, þar sem Börkur landaði mest, eða 22.882 tonnum, Beitir var með 15.674 tonn og Birtingur 12. 688 tonn.
Alls voru fryst 12.105 tonn af loðnu og loðnuhrognum fyrir ýmsa markaði á vegum Síldarvinnslunnar. Öll frystingin fór fram í fiskiðjuveri fyrirtækisins í Neskaupstað ef undan er skilinn hluti hrognanna sem unnin var í Helguvík í samvinnu við Saltver ehf. í Reykjanesbæ.
Fiskimjölsverksmiðjur Síldarvinnslunnar unnu samtals 124.151 tonni af loðnu á vertíðinni.
Börkur NK með kast á síðunni á nýliðinni loðnuvertíð. Ljósm. Ísak Fannar Sigurðsson