Fréttaskýring: Áform um sameiningar skóla hafa valdið reiði og tortryggni

forseti faskrudsfjordur 0022 webTakmarkaður jarðvegur fyrir sameiningar skólastofnana í Fjarðabyggð. Þær hugmyndur um þær sem komið hafi fram hafi mælst illa fyrir og eyða þurfi tortryggni bæði millibyggðarlaga og einstakra skólastiga til að þær geti gengið eftir. Byrja þarf á að eyða tortryggninni og vanda undirbúning ef þær eiga að ganga eftir.

Þetta kemur fram í úttekt Skólastofunnar á skólamálum í Fjarðabyggð sem unnin er að Ingvari Sigurgeirssyni sem hluti af verkefninu „Fjarðabyggð til framtíðar."

Bæjarstjórn ákvað að ráðast í úttektina eftir gerð fjárhagsáætlunar í nóvember síðastliðnum og hófst verkefnið með íbúafundum í janúar. Skýrslan verður kynnt á íbúafundum á Reyðarfirði og Norðfirði í dag en nefndir bæjarins með bæjarráð í broddi fylkingar móta úr henni tillögur sem bæjarstjórn fær til lokameðferðar í maí eða júní.

Þegar hefur náðst sparnaður upp á 35-40 milljónir króna með breytingum á kennslutímamagni og samnýtingu húsnæðis leikskóladeilda og frístundastarfs.

Hætt við sameiningar

Eitt af því sem hleypti vinnunni af stað voru hugmyndir um að kennslu elstu bekkjanna yrði hætt á Stöðvarfirði og þeim keyrt á Fáskrúðsfjörð. Þær mættu mikilli andstöðu heimamanna og voru að lokum dregnar til baka.

Það eru reyndar ekki einu breytingarnar sem mælst hafa illa fyrir. Í fyrravor stóð til að gera tilraun með að hafa leikskólann og grunnskólann á Fáskrúðsfirði undir einni stjórn á yfirstandandi skólaári á meðan leikskólastjórinn yrði í leyfi. Starfsmenn leikskólans mótmæltu ráðstöfuninni og fallið var frá henni.

Innbyrðis tortryggni ríkir í sveitarfélaginu

Í úttekt sinni kemur Ingvar sérstaklega inn á að mikil andstaða hafi verið við sameiningu skóla. Talað er um að þær hafi „mælst illa fyrir og jafnvel valdið reiði og tortryggni." Á fundum sem hann sat hafi „þung orð" verið látinn falla og því sé jarðvegur fyrir breytingar ekki góður.

Ingvar segir „innbyrðis tortryggni" ríkja í sveitarfélaginu, til dæmis milli einstakra byggðarkjarna og norður- og suðurhluta. Eins sé tortryggni milli leik- og grunnskóla sem sérstaklega hafi komið fram hjá viðmælendum úr leikskólunum en Ingvar telur brýnt að henni verði eytt.

Gott að sameina leik- og grunnskóla?

Þetta veldur vandkvæðum því Ingvar bendir á að breytingar á Stöðvarfirði þar sem leik- og grunnskóli voru sameinaðir árið 2012 hafi gefist vel, strax hafi sparast 3,5 milljónir og svo 8-10 milljónir árlega.

Mælt er með því að sameining skólastiganna á Fáskrúðsfirði verði könnuð til þrautar og komið inn á að sambærileg sameining á Eskifirði gæti verið „faglega góður kostur."

Ingvar segir að dæmi annars staðar frá séu bæði um sameiningar sem lukkast hafi vel en líka aðrar sem „hvorki hafi skilað faglegum né fjárhagslegum tilgangi." Eigi að ráðast í stærri breytingar verði að undirbúa aðgerðir vel og tryggja að allir hagsmunaaðilar geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Grunnskólarnir standa um margt vel

Í skýrslunni segir að grunnskólarnir standi um „margt vel miðað við allar aðstæður" og mörg dæmi séu um góða kennslu. Sérstaklega virðist það eiga við um valgreinarnar og árangur Nesskóla á samræmdu prófunum er sérstaklega nefndur.

Kennslu í nokkrum greinum sé þó ábótavant. Tónmenntakennara vanti á Stöðvarfjörð og smíðakennara á Reyðarfjörð þótt reynt hafi verið að fara aðrar leiðir.

Starf „margra leikskólanna" er sagt einkennast af faglegum metnaði en aðstaða í nokkrum þeirra sé „ófullnægjandi." Úrbætur eru framundan á Norðfirði þar sem byrjað er að byggja nýjan skóla en skoða þurfi stöðuna á Eskifirði og Reyðarfirði þar sem húsnæðið er sprungið. Ingvar hvetur til að starfsemi þeirra verði frekar flutt, að hluta eða heild, í grunnskólana.

Ein skólastofnun á endanum?

Framtíðin virðist hins vegar felast í sameiningum skólanna í eina rekstrareiningu fyrir öll skólastigin en hver starfseining verði að starfsstöð með skólastjóra með fulla ábyrgð á daglegum rekstri. Starfsmenn verði ráðnir til þessarar stofnunar frekar en ákveðins skóla sem geti bæði eflt skólastarfið og skilað „umtalsverði hagræðingu." Slíkt gæti nýst ef skólarnir sameinast um kennslu valgreina eins og lagt er til.

Fleiri aðgerðir koma til greina, til dæmis að störf aðstoðarskólastjóra verði lögð niður í áföngum en í staðinn ráðnir verkefnastjóra til styttri tíma eftir þörfum. Þá verði skoðað samstarf milli elstu stiga leiksóla og yngstu stiga grunnskóla og eins samstarf við tónskólana. Fjarkennsla er nefnd til sögunnar milli skóla og mælt með aukinni teymiskennslu.

Þá var öðrum hugmyndum safnað í vinnunni sem skilað gætu hagræðingu án þess að það bitni á starfinu og eins hugmyndum sem eflt geti skólastarfið sem fara þurfi nánar í saumana á.

Skólasamlag milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar besta lausnin?

Einna mesta rýminu er eytt í skólann á Stöðvarfirði enda umræður um hann að hluta til kveikjan að úttektinni. Áhyggjur séu af skólanum þar sem nemendum fækki stöðugt.

Ingvar telur að andstaðan við sameiningu hans við skólann á Fáskrúðsfirði byggist einkum á tvennu. Annars vegar ótta við að missa skólann og hins vegar óánægju með skólaakstur um Suðurfjarðarveg. Eins séu áhyggjur um að sameining gerði þjónustu.

Hans mat er að hugmyndir um aukið samstarf skólanna á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík, sem tilheyrir öðru sveitarfélagið, sé „áhugaverðasta dæmið." Vegurinn á milli sé hættu minni, hægt sé að nýta báðar starfsstöðvarnar og samnýta kennara. Áríðandi sé því að kanna þann möguleika til hlítar.

Skýrsla Skólastofunnar og úttekt KPMG um rekstur sveitarfélagsins Fjarðabyggðar verða nánar kynntar á opnum fundum í Nesskóla klukkan 17:30 í dag og í Grunnskólanum á Reyðarfirði klukkan 20:30 í kvöld. Nánari upplýsingar um fundina og skýrslurnar í heild sinni má lesa á vef Fjarðabyggðar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.