Glæsilegur Venus í Vopnafjarðarhöfn - Myndir
Nýtt uppsjávarskip HB Granda, Venus NS 150, kom til heimahafnar á Vopnafirði um hvítasunnuhelgina og á miðvikudag var haldin formleg móttaka, þar sem íbúum Vopnafjarðar og öðrum áhugasömum var gefinn kostur á að skoða þessa glæsilegu viðbót íslenska fiskiskipaflotans.Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri HB Granda, Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra sjávarútvegsmála og Ólafur Áki Ragnarsson sveitarstjóri á Vopnafirði fluttu ávörp þar sem þeir lýstu allir yfir mikilli ánægju með nýja skipið. Séra Stefán Már Gunnlaugsson blessaði svo skipið áður en því var formlega gefið nafnið Venus.
Fjöldi fólks lagði leið sína niður að höfn og fylgdist með því sem fram fór. Síðan var öllum boðið að stíga um borð, virða fyrir sér hina glæsilegu nýsmíði og þiggja léttar veitingar. Blaðamaður Austurfréttar var á staðnum og tók meðfylgjandi myndir.
Nánar verður fjallað um komu Venusar NS 150 til Vopnafjarðar í næsta tölublaði Austurgluggans