Júnímánuður byrjar á snjómokstri hjá Vegagerðinni

fjardarheidi4 webStarfsmenn Vegagerðarinnar á Austurlandi þurftu að moka snjó í Oddskarði og á Fjarðarheiði á þessum fyrsta degi júnímánaðar. Vegurinn um Oddskarð var alhvítur og krapi var á veginum við göngin. Þá þurfti einnig að moka krapa af veginum yfir Fjarðarheiði.

Að sögn Sveins Sveinssonar svæðisstjóra hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði er ekki óvanalegt að snjómokstursmenn á Austfjörðum þurfi að vera í viðbragsstöðu þó að komið sé fram í júní. „Þetta var nú bara smá snjór í morgun, en við búumst við því að það gæti orðið meira á morgun þó að við vonum það besta.“

Hellisheiði, sem liggur frá Vopnafirði yfir á Hérað, er enn ófær. „Það stóð til að fara að opna hana, en það verður væntanlega einhver frestun á því fyrst það er enn að snjóa til fjalla. Hún liggur líka svo hátt,“ sagði Sveinn.

Veðurspár gera ráð fyrir því að það kólni eftir því sem líður á vikuna og eins og staðan er í dag er gert ráð fyrir næturfrosti í byggð þegar nær dregur helgi. Það er því full ástæða fyrir þá sem ferðast yfir háheiðar snemma á morgnana að vera á varðbergi, þrátt fyrir að komið sé fram í júní.

Mynd: Snjómokstur á Fjarðarheiði. Þó ekki í morgun.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.