Júnímánuður byrjar á snjómokstri hjá Vegagerðinni

fjardarheidi4 webStarfsmenn Vegagerðarinnar á Austurlandi þurftu að moka snjó í Oddskarði og á Fjarðarheiði á þessum fyrsta degi júnímánaðar. Vegurinn um Oddskarð var alhvítur og krapi var á veginum við göngin. Þá þurfti einnig að moka krapa af veginum yfir Fjarðarheiði.

Að sögn Sveins Sveinssonar svæðisstjóra hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði er ekki óvanalegt að snjómokstursmenn á Austfjörðum þurfi að vera í viðbragsstöðu þó að komið sé fram í júní. „Þetta var nú bara smá snjór í morgun, en við búumst við því að það gæti orðið meira á morgun þó að við vonum það besta.“

Hellisheiði, sem liggur frá Vopnafirði yfir á Hérað, er enn ófær. „Það stóð til að fara að opna hana, en það verður væntanlega einhver frestun á því fyrst það er enn að snjóa til fjalla. Hún liggur líka svo hátt,“ sagði Sveinn.

Veðurspár gera ráð fyrir því að það kólni eftir því sem líður á vikuna og eins og staðan er í dag er gert ráð fyrir næturfrosti í byggð þegar nær dregur helgi. Það er því full ástæða fyrir þá sem ferðast yfir háheiðar snemma á morgnana að vera á varðbergi, þrátt fyrir að komið sé fram í júní.

Mynd: Snjómokstur á Fjarðarheiði. Þó ekki í morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar