Seyðisfjörður og Fljótsdalshérað studdu breytingar á skipulagi flugvalla
Austfirsku sveitarfélögin Seyðisfjarðarkaupstaður og Fljótsdalshérað styðja hugmyndir um að skipulag Reykjavíkurflugvallar og annarra alþjóðaflugvalla á Íslandi yrði flutt til innanríkisráðherra. Tekist hefur verið á um málið á Alþingi í morgun.Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður voru einu austfirsku sveitarfélögin sem sendu inn umsagnir um frumvarp Höskuldar Þórhallssonar um að skipulag Reykjavíkurflugvallar verði framvegis á höndum ríkisins en borgin sér um það í dag.
Í umsögnum beggja austfirsku sveitarfélaganna er opnað á þann möguleika að ríkið taki einnig yfir skipulag annarra alþjóðaflugvalla. Því var bætt við frumvarpið á nefndarfundi hjá Alþingi í morgun en meirihlutinn samþykkti síðan að frumvarpið farið þannig fyrir þingið.
Fulltrúar stjórnarandstöðu mótmæltu þessu og hafa í framhaldinu gagnrýnt vinnubrögð meirihlutans, meðal annars kallað eftir að fulltrúar Akureyrar og Fljótsdalshéraðs fái að koma fyrir nefndina og skýra sína afstöðu.
Tvö sátu hjá í bæjarstjórn
Í umsögn bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs er lýst stuðningi við frumvarpið þar sem Reykjavíkurflugvöllur sé það mikilvægur fyrir landið að eðlilegt sé að ríkið hlutist sérstaklega til um skipulag flugvallarins.
Því er einnig bætt við að eðlilegt sé að sérstök löggjöf sé sett um alþjóðaflugvelli en þeir eru í Keflavík, Akureyri og Egilsstöðum.
Bókunin var samþykkt samhljóða í bæjarráði. Báðir fulltrúar Héraðslistans sátu hjá við afgreiðslu í bæjarstjórn en listinn á aðeins áheyrnarfulltrúa í bæjarráði. Þeir lögðu hvorki fram bókanir í bæjarstjórn eða bæjarráði en í umræðum í bæjarstjórn lagði annar þeirra, Árni Kristinsson, áherslu á að skipulagsmál skyldu almennt vera í höndum sveitarfélaga.
Eðlilegt að setja lög þar sem heildarhagsmunir séu í fyrirrúmi
Í bókun bæjarráðs Seyðisfjarðarkaupstaðar er mikilvægi Reykjavíkurflugvallar ítrekað og þeirri skoðun lýst að hann eigi að vera áfram í Vatnsmýrinni án þess að dregið verði úr getu hans eða öryggi.
Ekki komi til greina að skerða möguleika eða loka nema annar fyllilega sambærilegur kostur í öryggi, athafnamöguleikum og staðsetningu sé fyrir hendi. Þá minnir ráðið á að völlurinn gegni mikilvægu almannavarnahlutverki fyrir Reykjavík og nágrannabyggðir.
Á sama tíma og ráðið telji skipulagsvald mikilvægt sveitarfélögum geti það ekki verið hafið yfir almannahagsmuni. Því sé eðlilegt að setja sérstök lög um alþjóðaflugvelli þar sem heildarhagsmundir byggða landsins og þjóðar séu í fyrirrúmi.
Ríki og sveitarfélög skipuleggi saman
Í umsögn Akureyrarkaupstaðar segir að ófært sé að einstök sveitarfélög geti stefnt framkvæmdum sem varði almannahagsmuni í hættu og rifjaðar upp ítrekaðar bókanir bæjarstjórnar frá síðustu árum um að flugvöllurinn fari ekki úr Vatnsmýrinni.
Talið er farsælast að leysa flugvallarmálið með samræmdri löggjöf um allra lykilflugvalla landsins. Skipulagsvaldið verði hins vegar ekki færð til Alþingis eða einstakra ráðherra heldur verði sameiginlega í höndum ríkis og sveitarfélaga.
Fjallabyggð styður frumvarpið og segir að hagsmunir landsbyggðarinnar séu best tryggðir í höndum innanríkisráðherra.
Bæjarráð Hornafjarðar gerir þá skýlausu kröfu að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýrinni en gerir athugasemd við að sett séu lög sem færi skipulagsvald frá sveitarfélögum til ríkis.
Ríkið bótaskylt
Í umsögnum annarra sveitarfélaga, sem og Sambands íslenskra sveitarfélaga, eru gerðar athugasemdir við að skipulagsvaldið sé að nokkru leyti tekið af þeim.
Í umsögn Reykjavíkurborgar segir að frumvarpið sé verulegt inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga sem sé hornsteinn stjórnarskrárvarins sjálfsstjórnarréttar þeirra. Lagalega illfært, jafnvel ómögulegt, sé að setja almenn lög sem gagni gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Þá viðrar borgin einnig þá skoðun að bótaskyldu myndist af hálfu ríkisins með slíkri eignaupptöku.
Álit Sambands íslenskra sveitarfélaga er undirritað af forstöðumanni lögfræðisviðs sambandsins. Þar er tekið flesta punkta borgarinnar, svo sem skaðabótaábyrgðina.
Ótækt til þinglegrar meðferðar?
Þar segir að það séu alvarleg tíðindi þegar fimmtán þingmenn fylki sér að baki frumvarpi sem fari svo gróflega gegn sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga og sé haldið svo fjölmörgum og augljósum annmörkum að augljóst sé að það sé ótækt til þinglegrar meðferðar.
Sambandið hvetur einnig til að beðið verði eftir niðurstöðum svokallaðrar Rögnunefndar sem skipuð var til að meta framtíð innanlandsflugs.
Hafnarfjörður og Vogar leggjast einnig gegn breytingum á skipulagsvaldi sveitarfélaga en Reykjanesbær býður aðeins innanlandsflugið og Landhelgisgæsluna velkomin til Keflavíkurflugvallar þegar og ef flugvellinum í Vatnsmýrinni verði lokað.
Aðrar leiðir færar
Skipulagsstofnun bendir einnig á stjórnarskrárréttindi sveitarfélaganna en vísar einnig til fordæma frá Norðurlöndunum þar sem skipulag svæða sem skipta máli fyrir öryggi landsmanna, svo sem flugvellir og fleiri samgöngumannvirki, heyra á einn eða annan hátt undir ríkið.
Stofnunin telur eðlilegt að gefa bindandi fyrirmæli þegar þjóðarhagsmunir séu í húfi en til þess séu aðrar leiðir en í frumvarpinu.
Mýflug, sem sér um sjúkraflug styður frumvarpið það gerir einnig Stefán Steinsson, verkefnisstjóri í sjúkraflugi og forstöðulæknir bráðamóttöku Sjúkrahúss Akureyrar.
Hann segir að frá sjónarhóli sjúkraflugs sé Reykjavíkurflugvöllur bestur óbreyttur. Breytingar á flugvallarstæðinu eigi að taka mið af almannahagsmunum en ekki hagsmunum íþróttafélaga eða fjárfesta.