Feneyjalistamaður vinnur landamerkjadeilu

moskan buchel webHéraðsdómur Austurlands dæmdi nýverið listamanninum Christoph Jules Buchel og Nínu Magnúsdóttur konu hans í vil í deilu um landamerki tveggja jarða utarlega í Seyðisfirði. Þau höfðu áður verið sýknuð af kröfum í gagnstefnu í sama máli.

Deilan snérist um landamerki jarðanna Austdals, sem hjónin keyptu árið 2006, og Bæjarstæðis sem skráð hefur verið á Jón Sigurðsson á Hánefsstöðum frá árinu 1986.

Þau höfðuðu málið fyrst árið 2013 og var beðið um að sýslumaðurinn á Seyðisfirði ynni að sáttum en hann gaf málið að lokum frá sér þegar hann taldi að þær hefðu verið reyndar án árangurs.

Miðað við heimildir virðist Bæjarstæði hafa orðið til sem hjáleiga út úr Austdal á ofanverðri 18. öld. Aldrei var þó gert sérstakt landamerkjabréf fyrir hjáleiguna þótt það væri skylt samkvæmt lögum. Í gömlum heimildum er talað um að landamerki milli jarðanna séu óljós.

Christoph og Nína, sem búið hafa á Seyðisfirði en eru með lögheimili í Reykjavík, vildu meina að landamerkin ættu að miðast við Stóralæk en ekki Austdalsá eins og nágranni þeirra á Hánefsstöðum hélt fram í gagnstefnu.

Dæmt var í gagnsökinni í vetur og voru eigendur Austdals sýknaðir þar. Dómurinn taldi þar rök gagnstefnanda almennt haldlítil eða illa reifuð.

Niðurstaðan nú var því í takti við þann dóm en dómari taldi að miða ætti landamerkin við Stóralæk eins og fram kæmi í matsgerð um Bæjarstæði frá árinu 1916. Ekki var talið að nýrri heimildir hnekktu henni.

Christoph er þekktur listamaður, svissneskur að uppruna og var fulltrúi Íslendinga á Feneyjatvíæringnum, einhverri stærstu listsýningu heims, í ár en Nína var sýningarstjóri íslenska skálans. Verk hans þar sem hann breytti kirkjubyggingu í mosku varð afar umdeilt og vakti heimsathygli. Borgaryfirvöld í Feneyjum töldu hann ekki hafa leyfi fyrir breyttri notkun kirkjubyggingarinnar og var henni að lokum lokað.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.