Vilja til að glæða Tjarnargarðinn lífi með frisbígolfvelli
Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði vonast til að líf færist í Tjarnargarðinn á Egilsstöðum þegar fyrsta frisbígolfvellinum á Austurlandi verður komið það upp. Ekki eru þó allir sammála um þá framkvæmd enda garðurinn skilgreindur sem skrúðgarður í gildandi skipulagi.„Ég tel að kastíþróttir, boltaleikir eða hlaup séu ekki við hæfi á þessu svæði og vil sjá það annars staðar," sagði Esther Kjartansdóttir, fulltrúi Á-listans í umhverfis- og framkvæmdanefnd Fljótsdalshéraðs.
Hún lagði fram bókun í nefndinni þar sem hún lagðist gegn uppsetningu vallarins á þeim forsendum að garðurinn væri skilgreindur sem skrúðgarður í skipulagi og fylgdi henni eftir á síðasta fundi bæjarstjórnar.
„Í allri hönnun er þessi garður skrúðgarður og það þarf ekki margra ára vinnu til að hann verði það," sagði Esther og bætti við að ef menn vildu glæða garðinn lífi þá gætti þar koma upp leiktækjum.
Undantekning að fólk sé í garðinum
Aðrir bæjarfulltrúar studdu hins vegar völlinn og tóku sex þeirra til máls til að lýsa yfir stuðningi við völlinn. Þeir vonuðust eftir að völlurinn yrði til þess að fleiri íbúar nýttu garðinn.
„Það er nánast til skammar hversu ódugleg við höfum verið í að nýta garðinn," sagði Sigrún Blöndal, forseti bæjarstjórnar.
„Ég sé yfir garðinn frá heimili mínu og það er nánast undantekning að nokkur sé í honum sem er mjög dapurlegt. Ef þetta verður til þess að fólk fer í Tjarnargarðinn og getur notið þess umhverfis sem þar er þá er það bara gott."
Vill þróa garðinn sem almenningsgarð
Stefán Bogi Sveinsson, oddviti minnihlutans, tók í sama streng en hann hefur lengi barist fyrir uppsetningu vallarins. „Garðurinn er skemmtilega staðsettur og býður upp á ýmsa möguleika en okkur hefur ekki lánast að haga því þannig að hann sé almennilega nýttur. Ég held að leiðin til þess sé að gera fólki kleift að ástunda leiki og skemmtan."
Hann fagnaði því því sérstaklega að með uppsetningu vallarins væri hrint í framkvæmd hugmynd af samfélagsvefnum Betra Fljótsdalshéraði auk þess sem sjálfstæðir sjóðir á vegum íbúa hefðu boðist til að styrkja byggingu vallarins.
Hann sagðist ekki á móti Tjarnargarðinum sem skrúðgarði en hann væri langt frá því að standa undir nafni sem slíkur í dag.
Árni Kristinsson og Anna Alexandersdóttir fögnuðu komu vallarins en kölluðu eftir framtíðarstefnu um garðinn.
Stefán Bogi sagðist sannfærður um að völlurinn væri skref í rétta átt. Hann hvatti til þess að horft yrði til uppbyggingar Reykjavíkurborgar á Klambratúni en þar er hægt að fá einföld útileiktæki til láns.
„Við viljum bjóða upp á opin svæði því við trúum að þau auki lífsgæði íbúa og ég vona að við þróum garðinn áfram sem almenningsgarð."