Seyðisfjörður: „Við eigum engin orð en við eigum hvert annað"

seydisfjordur 120ar setning 0017 webVið setningu 120 ára afmælis Seyðisfjarðarkaupstaðar í gærkvöldi sameinuðust gestir í bæn eftir alvarlegt bílslys í firðinum í vikunni þar sem ung stúlka lést og önnur slasaðist alvarlega. Forseti bæjarstjórnar notaði ávarp sitt til að þakka viðbragðsaðilum fyrir vinnu þeirra.

Séra Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur á Seyðisfirði, setti athöfnina og leiddi hópinn í bæn fyrir Völu Erlingsdóttur, sem liggur alvarlega slösuð á Landsspítalanum eftir slysið á þriðjudagskvöld og aðstandendum hennar og vinkonu hennar Hörpu Sigtryggsdóttur sem fórst í því.

Stutt þögn var í minningu hennar í lokin. Séra Sigríður minnti meðal annars á að samstaðan skipti máli á tímum sem þessum.

Undirbúningsnefnd afmælishátíðarinnar ásamt fleira fólki hittist á fundi daginn eftir slysið, þeirra á meðal aðstandendum stúlknanna. Þeir hvöttu meðal annars til þess að haldið yrði áfram með dagskrána í meginatriðum. Annar blær er hins vegar óumflýjanlega yfir hátíðarhöldunum og breytingar á stökum dagskrárliðum.

Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, hóf ávarp sitt á að þakka þeim sem komu fyrst að slysinu fyrir hárrétt viðbrögð og björgunarliði og lækni staðarins fyrir þeirra vinnu á slysstað.

Hún talaði um að við erfiðar aðstæður sem þessar væri gott að búa í litlu og samheldnu samfélagi. „Atburðurinn verður ekki aftur tekinn en við verðum að læra að lifa með honum."

Annar ræðumaður, Þóra Guðmundsdóttir, byrjaði einnig ræðu sína á að votta aðstandendum samúð og senda kveðjur. „Við eigum engin orð en við eigum hvert annað."

Afmælisnefndin ákvað að styrkja söfnun Lionsklúbbs Seyðisfjarðar til kaupa á hjartahnoðtæki sem skipt getur sköpum þegar slys ber að höndum. Söfnunarbaukur var við sviðið í gærkvöldi. Þá var einnig tilkynnt um að grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon hefði ákveði að láta hluta innkomu af uppistandi hans í kvöld renna í söfnunina.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.