Seyðisfjörður: „Við eigum engin orð en við eigum hvert annað"
Við setningu 120 ára afmælis Seyðisfjarðarkaupstaðar í gærkvöldi sameinuðust gestir í bæn eftir alvarlegt bílslys í firðinum í vikunni þar sem ung stúlka lést og önnur slasaðist alvarlega. Forseti bæjarstjórnar notaði ávarp sitt til að þakka viðbragðsaðilum fyrir vinnu þeirra.Séra Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur á Seyðisfirði, setti athöfnina og leiddi hópinn í bæn fyrir Völu Erlingsdóttur, sem liggur alvarlega slösuð á Landsspítalanum eftir slysið á þriðjudagskvöld og aðstandendum hennar og vinkonu hennar Hörpu Sigtryggsdóttur sem fórst í því.
Stutt þögn var í minningu hennar í lokin. Séra Sigríður minnti meðal annars á að samstaðan skipti máli á tímum sem þessum.
Undirbúningsnefnd afmælishátíðarinnar ásamt fleira fólki hittist á fundi daginn eftir slysið, þeirra á meðal aðstandendum stúlknanna. Þeir hvöttu meðal annars til þess að haldið yrði áfram með dagskrána í meginatriðum. Annar blær er hins vegar óumflýjanlega yfir hátíðarhöldunum og breytingar á stökum dagskrárliðum.
Arnbjörg Sveinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, hóf ávarp sitt á að þakka þeim sem komu fyrst að slysinu fyrir hárrétt viðbrögð og björgunarliði og lækni staðarins fyrir þeirra vinnu á slysstað.
Hún talaði um að við erfiðar aðstæður sem þessar væri gott að búa í litlu og samheldnu samfélagi. „Atburðurinn verður ekki aftur tekinn en við verðum að læra að lifa með honum."
Annar ræðumaður, Þóra Guðmundsdóttir, byrjaði einnig ræðu sína á að votta aðstandendum samúð og senda kveðjur. „Við eigum engin orð en við eigum hvert annað."
Afmælisnefndin ákvað að styrkja söfnun Lionsklúbbs Seyðisfjarðar til kaupa á hjartahnoðtæki sem skipt getur sköpum þegar slys ber að höndum. Söfnunarbaukur var við sviðið í gærkvöldi. Þá var einnig tilkynnt um að grínistinn Pétur Jóhann Sigfússon hefði ákveði að láta hluta innkomu af uppistandi hans í kvöld renna í söfnunina.