Óttar Guðmundsson: Þarf að fá stráka til að tala ef þeim líður illa

ottar gudmundsson gedlaeknir april15Smávægileg atvik geta oft verið kveikjan að því að ungir karlmenn láti verða af því að fremja sjálfsvíg en um leið endapunkturinn á löngu ferli. Geðlæknir segir að opna þurfi umræðuna til að gera þeim gert að tala um líðan sína.

„Það eru engin dauðsföll eins erfið og sjálfsvígið. Eftir verður mikið af tilfinningum, ósvöruðum spurningum og sjálfsásökunum. Þessum spurningum verður aldrei svarað og við það á fólk erfitt með að sætta sig við."

Þetta sagði Óttar Guðmundsson, geðlæknir á Landsspítalanum á fyrirlestri um sorg og sorgarviðbrögð sem áfallateymi Austurlands hélt fyrir skemmstu. Hvatinn að fyrirlestrinum voru tvö sjálfsvíg ungra karlmanna á Egilsstöðum með nánast árs millibili en þau höfðu mikil áhrif á samfélagið þar og víðar um fjórðunginn.

Í upphafi fyrirlestrarins skýrði Óttar frá því að áhugi hans á sjálfsvígum skýrðist bæði á því að hann hefði misst nána vini en hann hefði einnig eitt sinn ákveðið að taka eigið líf þegar hann var 17 eða 18 ára gamall.

„Það var eina nótt eftir að hafa verið á balli og stúlkan sem ég var hrifinn af hvarf með öðrum. Ég fullur og það rigndi og ég fór út staðráðinn í að lata af þessu verða en fór svo heim aftur. Eftir þetta hefur mér fundist ég skilja mjög vel þessa tilfinningu að vilja ekki lifa lengur og þessa ákvörðun sem tekin er í hvatvísi við stundaraðstæður."

Karlasjúkdómur

Á fimmtudag hlupu hlauparar í átakinu Útmeð'a um fjórðunginn en markmið þeirra var að safna áheitum og vekja athygli á sjálfsvígum ungra karlmanna. Þau eru algengasta dánarorsök karla á aldrinum 18-25 ára hérlendis. Árlega taka 4-6 á þeim aldri taka líf sitt.

Að meðaltali taka 35 einstaklingar líf sitt árlega hérlendis. Sú tala hefur verið stöðug árum saman en snögg aukning varð árið 2000 sem hvarf svo jafn sporlaust og hún kom.

Óttar lýsir sjálfsvígunum sem „karlasjúkdómi" því um þrefalt fleiri karlar taki líf sitt heldur en konur. Sem fyrr segir er toppur hjá 18-25 ára körlum og annar eftir fertugt. Aldursdreifingin er jafnari hjá konunum. Þær eru hins vegar í meirihluta þeirra sem reyna sjálfsvíg en karlarnir virðast frekar gera eina tilraun sem takist. Kynjamunurinn er fyrir hendi um allan heim.

Óttar segir hann fyrst og fremst mótaðan af samfélaginu. „Strákar eiga erfiðra með að tala um tilfinningar sínar, það er hluti af karlmennskunni að væla ekki. Stúlkurnar tala meira og leita þeirra sem veita aðstoð.

Vináttusambönd stúlkna virðast betri eða dýpri en karlmannanna. Þeir fara ekki á djúpið og tala um tilfinningar eða sig sjálfa. Eitt af því sem þarf að gera er að fá stráka til að tala ef þeim líður illa."

Óttar segir félagslega stöðu ungra karlmanna vera að breytast. „Þeir finna fyrir meira óöryggi en áður. Við fáum unga stráka inn okkar í krísu. Þeir upplifa tilgangsleysi sem ég kannast ekki frá mínum unglingsárum."

Sjaldgæft að sjálfsvígið sé stundarákvörðun

Þótt ákvörðunin og verknaðurinn séu oft framin að því er virðist í stundaræði liggja ræturnar yfirleitt dýpra.

„Í lang, langflestum tilvikum er þetta ferli. Það er sjaldgæft að sjálfsvígið sé stundarákvörðun. Hugsunin um að svipta sig lífi hefur verið lengi við lýði. Hún er ekki alltaf greinileg hjá ungu körlunum en er yfirleitt fyrir hendi," sagði Óttar sem líkti ferlinu við hjónaskilnað. Þróunin geti varað vikum, mánuðum eða jafnvel árum saman.

Þunglyndi eða önnur svartsýni liggi yfirleitt að baki. „Það myndast tenging við einangrun sem einstaklingar hafa fundið fyrir í lífinu, tilfinningu um að vera ekki hluti af samfélaginu, að vera einskis virði og öllum sé sama um mann.

Oft er fyrsta hugsunin: „ég vildi óska að ég væri dauður." Margir stoppa þarna en hjá sumum heldur þetta áfram, eins og blóm sem hefur skotið rótum. Næst er að hugsa: „Kannski ég ætti að gera eitthvað í því."

Maður fer að velta dauðanum fyrir sér sem lausn og hætta vera hluti af leiðindunum sem maður upplifir í kringum sig. Menn fara út í draumkenndar fantasíur um dauðann, dauðadaður eða ástarsamband við dauðann.

Ef maður er kominn á þetta stig þá er dauðinn orðinn hluti af manni sjálfum. Ég var búinn að vera á þessu stigi í dálítinn tíma, heillaður af dauðanum og að skoða kirkjugarðinn. Þá fara menn að spá, gera ráðstafanir og útvega sér tæki."

Eins er þetta dauðadaður helsta aðvörunin sem aðstandendur og vinir geta fengið. „Ef fólk er að tala um dauðann, upphefja hann eða tala fjálglega um þá sem eru dauðir og lausir undan öllu eða að það sé einskis nýtt. Þetta geta verið óbein skilaboð um að unglingurinn sé þunglyndur og taka þurfi í taumana og fá hann til að tala."

Þarf lítið að koma upp á

Óttar segir 80-90% þeirra sem leggist inn á geðdeild vegna þunglyndis eða kvíða vera á þessu stigi. Þeir séu búnir að selja sér hugmyndina um að þeir séu betur dauðir. „Menn segja: „Ég hef hugsað um sjálfsvíg en get ekki hugsað mér að gera það."

Á þessu stigi skrifi menn kveðjubréfið, sem séu reyndar sjaldgæfari í dag en áður. Eins þurfi lítið til að látið sé til skarar skríða.

„Þegar maður er staddur á þessum stað verður allt svo stórt. Það þarf mjög lítið að koma upp á," segir Óttar og rifjar upp atvikið með stúlkuna forðum. „Atvikið sem maður ætlar að deyja út af getur verið mjög kjánalegt."

Hann varaði einnig við áhrifum áfengis, sem hann kallaði aðalhvatann, en 2/3 þeirra sem annað hvort fyrirfara sér eða gera alvarlega tilraun til þess eru undir áhrifum þess.

„Helstu áhættuþættirnir eru blanda af þunglyndi, svartsýni, vonleysistilfinningu og áfengi. Það er alveg voðalegur kokteill. Það getur komið upp smá atvik sem ætti ekki að skipta máli en við þessar kringumstæður er tilfinningarótið svo mikið að þessi afdrifaríka ákvörðun er tekin og venjulega er áfengi með í ferðum."

Hann hafnar því að sjálfsvíg sé sjálfselskur verknaður. „Það kemur annað í ljós þegar maður fer að kanna hugarheim þeirra sem það reyna. Þeir ætla að fyrirfara sér því þeim er ofaukið og hafa það á tilfinningunni að þeir séu byrði fyrir samfélagið. Bréfin eru oft full af kærleika þar sem beðist er fyrirgefningar. Viðkomandi fer fyrst og fremst til að létta líf annarra."

Óttar nefndi sem dæmi kveðju söngvarans Kurt Cobain þar sem hann kveður til að gera ungri dóttur sinni lífið bærilegra í framtíðinni. „Þetta er hluti af geðrofsástandi, sjálfsblekkingu eða sjálfssefjun þar sem menn trúa einhverju sem er alls ekki raunverulegt."

Þöggunin er mjög slæm

Óttar segir samfélagið lengi hafa haft fordóma gegn sjálfsvígum. Strax 400-500 eftir Krist hafi kaþólska kirkjan meinað þeim sem féllu fyrir eigin hendi að liggja í vígðum reit því þeir hefðu brotið gegn boðorðinu „þú skalt eigi morð fremja."

Afstaðan hafi enn frekar herst með siðaskiptunum því Lúther hafi boðað að sjálfsvíg væru verk djöfulsins. Þessi neikvæða afstaða þýði að atburðirnir hafi alltaf verið þaggaðir niður í samfélaginu og loks um miðja nítjándu öld hafi verið að grafa þá sem féllu fyrir eigin hendi í kirkjugörðum án sérstaks leyfis.

Samfélagið sé ekki komið frá hinni kirkjulegu fordæmingu nema að takmörkuðu leyti því sjálfsvíg séu enn feimnismál í samfélaginu.

„Þótt sagan sé fjarlæg þá er hún alltaf með okkur. Þöggunin er mjög slæm. Það skiptir máli að tala um þetta. Þannig styðjum við hvert annað."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar