Áformar flug milli Egilsstaða og Lundúna: Trúum að leiðin skapi nýjan markað
Clive Stacey, eigandi ferðaskrifstofunnar Discover the World, segist hafa trú á að hægt verði að auka enn frekar ferðamannastreymi til Íslands með beinu flugi milli Egilsstaða og Gatwick flugvallar við London. Til stendur að gera tilraunir með flug frá maí til október á næsta ári og í febrúar og mars árið 2017.„Það er trú okkar að þetta muni búa til nýjan markað frekar en taka viðskipti af þeim flugfélögum sem þegar fljúga til landsins og muni veita langþráðan valkost á móti hinni hefðbundnu flugleið til og frá Íslandi," segir Clive í svari við fyrirspurnum Austurfréttar.
„Sú staðreynd að við höfum náð þetta langt er bæði fjölda fólks og stofnana á Austurlandi að þakka og þar er virkileg ákveðni í að láta þetta verkefni ganga upp."
Eins og Austurfrétt hefur greint frá hefur Discover the World síðustu mánuði skoðað möguleikana á flugi í Egilsstaði og átt í viðræður við Austurbrú og fleiri aðila á svæðinu vegna þessa.
Í svarinu koma eru taldir upp þrír meginmarkhópar flugsins. Í fyrsta lagi viðskiptavinir skrifstofunnar sem vilji sleppa við umferðarþungann í Keflavík og suðvesturhorninu, Austfirðingar og Norðlendingar sem vilji ferðast til Lundúna eða áfram þaðan og loks ferðalangar sem vilji fara aðra leiðina í gegnum Keflavík en hina um Egilsstaði.
Þessa dagana er unnið að því að tryggja flugvélar í verkið og segist Clive bjartsýnn um að það takist. Áætlanirnar ganga út frá að nota 180 sæta Airbus 320 vélar í flugið. Flogið verði vikulega á sunnudögum frá 22. maí til 2. október árið 2016 og tvisvar í viku í febrúar og mars árið 2017.
Þarf stuðning hins opinbera og heimamanna
Þar með er ekki öll sagan sögð. Clive segir að ekkert verði af fluginu nema nauðsynlegur stuðningur þess opinbera og austfirskra ferðaþjónustuaðila.
„Við erum í viðræðum við helstu hótel svæðisins um að útvega okkur nægt gistipláss fyrir viðskiptavini okkar og í sumar munum við skoða þróunaráætlanir nánar með ferðaþjónustuaðilum svæðisins.
Að lokum erum við að ræða við verkalýðsfélög og fyrirtæki á svæðinu um að kaupa farmiða fyrir sitt fólk því við teljum að flugið geti allt eins gagnast heimamönnum og viðskiptavinum okkar. Við höfum átt í viðræðum um þetta og erum bjartsýn á að þær skili góðum árangri en þessi atriði verða öll að ganga upp áður en við tökum næsta skref."
Síðustu mánuði hefur nefnd verið að störfum á vegum forsætisráðherra um möguleika á og stuðning við millilandaflug um Egilsstaðaflugvöll. Búist er við að hópurinn skili niðurstöðum sínum um mánaðarmótinu ágúst/september.
Icelandair og WOW vildu ekki fljúga í Egilsstaði
Clive ítrekar að fullur vilji fylgi máli hjá Discover the World til að láta flugið verða að veruleika. Hann bendir hins vegar á að þótt skrifstofan eigi að baki 31 árs sögu hafi hún aldrei staðið fyrir leiguflugi til Íslands áður heldur unnið náið með Icelandair í fyrstu og síðar WOW og EasyJet.
„Við buðum vitaskuld bæði Icelandair og WOW að koma á svæðisbundnu flugi til London en það bar engan árangur. Við ráðumst því í verkefnið því enginn annar hefur viljað það."
Þá segir hann að stærsta ástæðan fyrir því að kosið hafi verið að fljúga frekar til Egilsstaða en Akureyrar í fyrstu hafi verið sú að meira virðist af lausu gistirými eystra yfir háannatímann. Fleiri ástæður séu hins vegar til staðar og ekki sé útilokað að leiguflug til Akureyrar verði nánar skoðað síðar gangi Egilsstaðaflugið vel.