Eskja undirbýr nýtt athafnasvæði

eskifjordur eskjaEskja hf. á Eskifirði hefur sótt um nýtt athafnasvæði til að byggja upp frekari starfsemi tengda fyrirtækinu neðan við núverandi fiskimjölsverksmiðju. Nota á tækifærið meðfram gerð Norðfjarðarganga til að byggja svæðið upp þótt ekki sé ákveðið hvað verði byggt þar upp.

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð samþykktu í síðustu viku að úthluta Eskju lóðirnar að Leirukróki 5, 7, 9 og 11. Jafnframt verður deiliskipulagi Leiru 1 þannig að lóðirnar fjórar verða sameinaðar í eina.

Páll Snorrason, fjármálastjóri Eskju, segir tækifæri til að byggja lóðirnar upp á meðan unnið er í jarðgangagerðinni.

„Við þurfum að sækja um lóðirnar, fá þær og fergja þær þannig að þær verði byggingarhæfar í framtíðinni.

Þetta eru ekkert sérstakar lóðir en við erum að hugsa til framtíðar. Við njótum góðs af göngunum og notum efni þaðan til að búa til okkar framtíðar byggingasvæði.

Það voru reknir niður steypustöplar fyrir bæði mjöltankana og reykháfinn en byggingarlandið verður betra ef hægt er að fergja það," útskýrir hann.

Ekkert verður byggt strax því fargið þarf að liggja á landinu í að minnsta kosti hálft ár. Ekki hefur enn verið gefið nánar út hvernig til standi að nýta landið.

„Við erum að íhuga byggingar, við sækjum ekki um út af engu en á þessu stigi er ég ekki tilbúinn að segja hvað við erum að hugsa."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar