Síldarvinnslan gagnrýnir dramatískan fréttaflutning

birtingurÓhapp varð í Reykjavíkurhöfn í gær, þegar unnið var að vélarviðgerðum í skipi Síldarvinnslunnar, Birtingi NK-124. Síldarvinnslan sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fréttaflutningur af atvikinu er gagnrýndur. Engir fjölmiðlar höfðu samband við skipstjóra Birtings eða aðra úr áhöfn sem voru á staðnum og einungis RÚV hafði samband við framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, eftir að hafa áður birt rangar fréttir af atburðarásinni.

Bilun kom upp í vél Birtings á leið skipsins til Reykjavíkur, en skipið ætlaði að halda til makrílrannsókna við Grænland. Því var skipið dregið til Reykjavíkur og hafist handa við vélarviðgerðir.

Til að halda skipinu réttu við bryggju á meðan unnið væri að viðgerð var sjó dælt úr lestum skipsins. Of mikill sjór varð þó eftir stjórnsborðsmegin og við það tók skipið að halla verulega. Þegar hefja átti dælingu til að rétta skipið af tóku dælurnar hinsvegar loft og virkuðu ekki. Vegna hallans á skipinu tók ljósavélin að brenna smurolíu og reykti mikið.

Einhver óviðkomandi aðili tilkynnti um reykinn og slökkvilið og lögregla mættu á vettvang. Samkvæmt tilkynningu frá Síldarvinnslu var þó aldrei nein hætta á ferðum, þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir aðstoð hafnaryfirvalda í öryggisskyni.

Slökkviliðið bauðst til þess að hjálpa til við að dæla vatni um borð í skipið og fljótlega varð unnt að nota dælur skipsins á ný.

„Þegar óhöpp sem þessi eiga sér stað er mikilvægt að fréttaflutningur af þeim sé vandaður og yfirvegaður en ekki séu búnar til dramatískar fréttir að ástæðulausu. Þá er grundvallaratriði að fjölmiðlar afli sér haldgóðra upplýsinga áður en frétt er send út,“ segir í tilkynningu frá Síldarvinnslunni, sem þakkar jafnframt fyrir veitta aðstoð í Reykjavíkurhöfn í gær.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.