Forsætisráðherra borgar helmingi minni skatta eftir brotthvarf auðlegðarskatts

sigmundur david feb13Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, borgar helmingi minna í opinber gjöld í ár heldur en í fyrra. Aðalástæðan er að auðlegðarskattur er fallinn úr gildi.

Þetta kemur fram ef álagningarskrár á Fljótsdalshéraði eru skoðaðar en Sigmundur Davíð er með lögheimili á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð.

Sigmundur var í fyrra fimmtándi á lista þeirra sem greiddu mest í opinber gjöld á Austurlandi, alls 18,1 milljón króna. Hann er hins vegar hvergi sjáanlegur á lista Austurgluggans, sem kom út í dag, yfir tuttugu gjaldahæstu einstaklinga svæðisins í ár.

Þegar farið er í álagningarskrárnar kemur í ljós að Sigmundur Davíð borgar um átta milljónir í skatta í ár, þar af 2,76 milljónir í útsvar og 5,12 milljónir í tekjuskatt.

Í fyrra greiddi hann 2,3 milljónir í útsvar, 8 milljónir í tekjuskatt og 7,8 milljónir í auðlegðarskatt sem ekki er lengur til staðar.

Miklar breytingar urðu á skattakerfinu um síðustu áramót. Tekjuskattur í miðþrepi var lækkaðu en launaþak í lægsta þrepi hækkað, frítekjumark fjármagnstekna var hækkað, útvarpsgjald lækkað, ýmsar breytingar gerðar á virðisaukaskattskerfinu og vörugjöld lækkuð auk þess sem ákveðið var að framlengja ekki auðlegðarskattinn sem í fyrsta sinn var lagður á í álagningu árið 2010.

Skatturinn var lagður á eignir umfram 120 milljónir króna hjá hjónum og 90 milljónir hjá einstaklingum. Skatthlutfallið var 1,5-2%, eftir eign. Ríflega 6.500 einstaklingar greiddu skattinn sem skilaði 6,2 milljörðum króna í þjóðabúið. Sérstakur viðbótarauðlegðarskattur á hlutabréfaeign, sem ekki er heldur til staðar, skilaði 4,7 milljörðum.

Auðlegðarskatturinn var alla tíð umdeildur og var Sigmundur Davíð meðal þeirra sem gagnrýndu hann á þeim forsendum að skatturinn kæmi sérlega illa við eldra fólk sem sæti uppi með stórar íbúðir, hefði sparsemi og sýnt ráðdeild alla tíð en hefði litlar tekjur á efri árum.

Eins var efast um lögmæti skattsins en Hæstiréttur úrskurðaði fyrir um ári að skattheimtan stæðist stjórnarskrá.

Hann var hins vegar aðeins tímabundinn og ákvað núverandi ríkisstjórn að framlengja hann ekki. Það var einnig gagnrýnt á þeim forsendum að með því yrði ríkið af milljörðum í tekjur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar