Framtíð Austurlands óljós: Leiðinlegast að hafa ekki fengið að kveðja lesendur
Óljóst er hvað verður um vikublaðið Austurland eftir að Vefpressan ehf. yfirtók útgáfufélag þess Fótspor. Ritstjórinn segist ekki enn hafa heyrt í nýjum eigendum.Rúm vika er síðan tilkynnt var um eigendaskiptin og enn virðist óljóst hver framtíð blaðsins verður.
Í svari við fyrirspurn Austurfréttar segir Halldóra Tómasdóttir, ritstjóri, að hún hafi ekkert heyrt í nýjum eigendum og miðað við póstinn frá Ámunda Ámundasyni, fráfarandi útgáfustjóra, hafi hún talið að blaðið kæmi ekki út aftur. Fréttir síðan hafi bent til annars.
Hún reiknar með að nýir eigendur leiti að nýjum ritstjórum. „Ég tel það líklegt en snögg voru endalokin engu að síður og finnst mér leiðinlegast að hafa ekki fengið að kveðja lesendur."
Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi Vefpressunnar, hefur ekki svarað fyrirspurn Austurfréttar um framhald Austurlandsins. Blaðið kom fyrst út í september árið 2012, fyrst mánaðarlega en síðan á tveggja vikna fresti og hefur verið dreift í öll hús á svæðinu frá Vopnafirði til Hornafjarðar.