LungA-skólinn undirbýr sinn annan starfsvetur: Enn opið fyrir umsóknir

lunga 2014 0261 webLungA-skólinn á Seyðisfirði hefur göngu sína á ný í september, en skólinn hefur starfað í einn heilan vetur. Námsfyrirkomulaginu svipar til norrænna lýðháskóla og er boðið upp á 12 vikna námskeið, bæði á haustönn og vorönn. Austurfrétt heyrði í Jonatan Spejlborg, einum aðstandenda skólans og spurði hann út í veturinn framundan.

„Skráningin hefur gengið vel. Við verðum með fleiri nemendur í vetur en við vorum með seinasta vetur og þetta passar allt mjög vel við þann hraða þróunar sem við vorum að vonast eftir. Síðasta vetur vorum við með um helminginn af þeim fjölda sem við getum mögulega tekið á móti og í haust virðist ætla að verða næstum því fullt í skólann. Vorið lítur einnig út fyrir að verða fullt, en það kemur í ljós,“ segir Jonatan.

„Það hentar okkur mjög vel að það sé stígandi í ásókninni í skólann, því það gerir okkur kleift að þróa innviðina, eins og hvernig sé best að útfæra mat og gistingu fyrir nemendurna. Það er þægilegra að komast að því hvernig er best að gera þetta þegar það er ekki alveg fullsetinn skóli,“ segir Jonatan ennfremur.

Þá segir Jonatan einnig eðlilegt að að það taki smá tíma fyrir nýjan skóla að skapa sér nafn og koma sér á framfæri.

Áhersla á sjálfsstyrkingu nemenda
LungA-skólinn er listaskóli, þar sem nemendurnir vinna í smiðjum, sem eru með svipuðu fyrirkomulagi og þær sem eru á hinni árlegu LungA-hátíð, sem skólinn er sprottinn upp úr. „Í smiðjunum fá nemendur að spreyta sig með ýmsum hætti. Í haust er til dæmis boðið upp á hljóð- og tónlistarnámskeið, ritunarsmiðju, ljósmyndun, myndbandasmiðju, dans og sviðslist auk þess sem nemendurnir fá lausan taum með miðla og framsetningu í sumum smiðjunum,“ segir Jonatan.

Fyrir utan smiðjurnar sjálfar er líka lögð mikil áhersla á sjálfsstyrkingu nemenda og að þeir öðlist reynslu og hæfileika til að feta sig áfram á þeim sviðum sem þeir kjósa. „Við leggjum áherslu á sjálfsskoðun og samtal, með það að markmiði að nemendur verði meðvitaðri um þeirra eigið lærdómsferli og karakterþróun.“

Nemendur hvaðanæva að úr heiminum
Jonatan segir nemendurna koma víða að. „Síðasta vetur vorum við með nemendur frá 10 mismunandi löndum og við erum að sjá svipað mynstur fyrir komandi vetur. Í haust verðum við með nemendur frá Mexíkó, Filippseyjum, Danmörku, Ástralíu, Ítalíu og fleiri löndum, auk auðvitað Íslendinga. Í fyrra var helmingur nemendanna Íslendingar og ég tel það henta skólanum vel. Þar sem við erum á Íslandi, er það eðlilegt og nauðsynlegt að vera með íslenska nemendur.“

Fyrsti heili starfsvetur LungA-skólans gekk betur en nokkur hafði þorað að vona, að sögn Jonatans. „Síðasti vetur var alveg frábær! Það er erfitt að koma því í orð, en heilt yfir var síðasti vetur betri en við höfðum þorað að vona. Gæðin í smiðjunum og afrakstur þeirra var mjög góður og fyrirkomulag námsins virkaði mjög vel. Viðbrögð nemenda voru gríðarlega góð og margir nemendanna á vornámskeiðinu ákváðu jafnvel að lengja dvöl sína á Seyðisfirði fram á sumarið. Okkur finnst alveg magnað að sjá hversu mikið nemendurnir vaxa á einungis 12 vikum. Það getur margt gerst á stuttum tíma og við erum bara full eftirvæntingar fyrir komandi vetri,“ segir Jonatan.

Enn er hægt sækja um skólavist í LungA skólanum á komandi haustönn, en lokað verður fyrir umsóknir þann 14. ágúst. Opið er fyrir umsóknir á vorönn 2016.

Hægt er að sækja um hér.
Hér má finna frekar upplýsingar um skólann, skólagjöld, námsskrá og fleira.


Mynd: Frá LungA-hátíðinni á Seyðisfirði 2014. 

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.