Innflutningsbann Rússa hefur áhrif á gríðarlega mörg störf á Austfjörðum

jens gardar stfj mai14Erfitt er að meta áhrif innflutningsbanns Rússa á íslenskan fisk á Austurland en sjávarútvegsfyrirtæki á svæðinu hafa átt í miklum viðskiptum við Rússa. Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) segir bannið koma harðar niður á Íslendingum en flestum öðrum þjóðum og ekki sé hlaupið að því að finna aðra markaði.

„Við erum ekki byrjuð að átta okkur á áhrifum bannsins en þetta er gríðarlega alvarlegt mál fyrir þessi samfélög fyrir austan, einkum í Fjarðabyggð og Vopnafirði. Þetta hefur áhrif a´mörg störf þar," segir Jens Garðar Helgason, formaður SFS og bæjarráðs Fjarðabyggðar.

Jens segir að verið sé að taka saman upplýsingar um stöðuna, hvaða skip hafi verið á sjó, hver hafi náð að landa áður en bannið skall á í gær og svo framvegis.

„Það eru tvö skip í hafi sem verða líklega að fara annað. Síðan er skip sem landar á Eskifirði um helgina en sá afli fer líklega í geymslu.

Í framhaldinu þurfum við að vinna að því með stjórnvöldum hvernig við vinnum okkur út úr þessu og höldum áfram uppi öflugum samskiptum við Rússa en komum jafnframt á betri samskiptum milli utanríkisráðuneytisins og greinarinnar."

Skorti samtal við ráðuneytið

Ísland hefur stutt viðskiptabann Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og nokkurra annarra bandaþjóða við Rússland sem sett var fyrir ári innrás Rússa á Krímskaga í Úkraínu. Rússar svöruðu með innflutningsbanni sem Ísland slapp við í fyrra. Stuðningurinn var hins vegar ítrekaður fyrir skemmstu og í gærmorgun var Íslandi bætt á bannlistann.

Jens segir að fiskútflytjendur hafi eftir stuðningsyfirlýsingu íslenskra stjórnvalda við bannið í fyrra rætt við utanríkisráðuneytið. Það hafi komið þeim á óvart að ráðuneytið hafi ekki gert sér grein fyrir hagsmunir væru í húfi sem felast ekki bara í sölu heldur uppgjöri skulda, löndunarstöðu skipa og fleiru.

Fyrirheit hafi verið gefin um það þá að að upplýsingaflæðið yrði bætt enda mikilvægt fyrir greinina að vera með upplýsingar í rauntíma. Ekki hafi verið úr því bætt þegar á reyndi. Þá setur Jens Garðar spurningar við upplýsingaöflun stjórnvalda.

„Það sló okkur að lesa það í fréttum að ráðuneytið hefði ekki unnið neitt áhættu- eða hagsmunamat áður en ákveðið var að skrifa undir."

Ekki einfalt að finna nýja kaupendur

Þá ber tölum SFS og íslenskra stjórnvalda um áhrif bannsins ekki saman. SFS segja að í fyrra hafi afurðir verið seldar til Rússlands fyrir 31 milljarð króna og eftir góða loðnuvertíð var áætlað að selja fyrir 37 milljarða í ár.

Tölur stjórnvalda, sem koma frá Hagstofunni, eru lægri en Jens segir það vera því þær byggi á hvert fiskurinn sé fluttur, ekki hvert endanlegt neyslu land sé. Hluta þess fisks sem seldur sé til Rússlands sé umskipað í Litháen og Hollandi.

Ekki er heldur hlaupið að því að finna aðra markaði fyrir fiskinn, til dæmis makrílinn en sú vertíð stendur nú sem hæst.

„Það er mikill misskilningur að halda að menn geti komist beint inn á aðra markaði. Í fyrsta lagi erum við að veiða hann á öðrum árstíma heldur en Norðmenn og Skotar og í öðru lagi er 20% tollur inn á íslenskan fisk á markaði Evrópusambandsins sem felldur hefur verið niður á þann norska. Við erum í gríðarlega mikilli markaðsvinnu, til dæmis í Kína en hún er langhlaup."

Við bætist að aðrir markaðir hafa lokast. Til þessa hefur um ein milljón tonna verið flutt til Nígeríu árlega en sá markaður er lokaður vegna stjórnarskipta þar í vor og lækkandi olíuverðs. Til annarra Afríkulanda hafa verið flutt um 750 þúsund tonn árlega en markaðirnir eru minni eða greiða minna fyrir afurðina, jafnvel svo lítið að vart tekur sig að veiða hana.

Bannið bitnar harðast á Íslendingum

Viðskiptabann Evrópusambandsins nær til vopnaviðskipta almennt og frystingu eigna og ferðabanna valinna Rússa. Þá eru hömlur á bankaviðskiptum ákveðnum rússneskra fjármálafyrirtækja. Innflutningsbann Rússa nær aðeins til matvara.

Eftir sem áður geta Rússar keypt lúxusvörur frá ríkjum Evrópusambandsins og þau olíu og gas á móti.

„Það er viss tvískinnungur Evrópusambandsins að tryggja að lífið geti áfram gengið sinn vanagang," segir Jens en bendir á að Ísland fari mun verr út úr banninu. Áætlað er að hlutur Rússlands í heildarvöruútflutningi Íslendinga sé tæp 5% en falli niður í tæpt 1% með banninu.

„Ekkert af þessum þvingunum á við okkur en við tökum á okkur 10-20 sinnum þyngra högg en aðrar þjóðir."

Jens Garðar segir það hafa sýnt sig í gegnum tíðina að viðskiptabönn beri ekki árangur. Bandaríkjamenn séu til dæmis að liðka til gagnvart Íran og Kúbu eftir margra áratuga þvinganir.

„Mín persónulega skoðun er að viðskiptaþvinganir séu ekki rétta leiðin. Þær koma helst niður á almennum borgurum í viðkomandi löndum.

Við eigum viðskipti við fullt af löndum þar sem við teljum að pottur sé brotinn í mannréttindamálum. Líkt og við höfum gert þar getum við fordæmt aðgerðir Rússa í Úkraínu eða komið á framfæri okkar viðhorfi í mannréttindamálum þótt við skrifum ekki upp á þvinganir gegn hergagnasölu og ákveðnum einstaklingum."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.