Airbnb á Austurlandi: 32 íbúðir eða hús til leigu í þéttbýli

airbnb22Airbnb er vefsíða sem gerir fólki kleift að leigja út íbúðir sínar til ferðamanna í skemmri eða lengri tíma. Síðan nýtur síaukinna vinsælda á meðal Íslendinga sem sjá tækifæri í að leigja húsnæði sitt út tímabundið á meðan þeir fara sjálfir að ferðast eða fjárfesta í íbúðum til þess eins að leigja þær út.

Í Reykjavík hefur verið deilt um ágæti þessarar þjónustu og skemmst er þess að minnast að í síðustu viku lögðu íbúar í Skuggahverfinu fram kæru á hendur íbúðareigendum í fjölbýlishúsi fyrir að leigja íbúðir sínar út án tilskilins starfsleyfis.

Þá hefur verið talað um að útleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna ýti upp leiguverði í borginni, þar sem hægt er að hafa mun meira upp úr því að leigja ferðamönnum íbúðir til skamms tíma en að leigja þær út í langtímaleigu.

Útleiga íbúðarhúsnæðis í gegnum internetið hefur einnig orðið viðfangsefni stjórnmálanna, en Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, lagði fram frumvarp í vor sem var ætlað að auðvelda skráningu á heimagistingu fyrir aðila sem eru nú þegar að leigja heimili sín út til ferðamanna hluta úr árinu. Frumvarpið fór þó ekki í gegn á afstöðnu þingi.

Markmiðið með frumvarpinu var að fækka leyfislausum og óskráðum gististöðum og draga þannig úr svartri atvinnustarfsemi, en töluvert hefur borið á því að fólk leigi út íbúðir sínar án tilskilinna leyfa. Ríkisskattstjóri hefur til að mynda rannsakað þá sem leigja út húsnæði á Airbnb sérstaklega.

Eigendur gistiheimila og sumarhúsa nota síðuna einnig
Uppgangur Airbnb hefur verið hraður víða um heim á síðastliðnum árum og alls eru skráð gistirými meira en ein og hálf milljón í rúmlega 34.000 borgum og bæjum í 190 löndum. Síðan hefur notið síaukinna vinsælda meðal ferðamanna fyrir þægilegt notendaviðmót og persónuleg kynni við leigusalana, sem eru ferðamönnunum gjarnan innan handar og deila með þeim leyndardómum heimabæja sinna. Margir ferðamenn kjósa frekar að gista heima hjá fólki, fremur en á hótelum.

Þó hafa eigendur lítilla hótela, gistiheimila og sumarhúsaeigendur einnig séð hag sinn í að nýta sér Airbnb til útleigu gistirýmis - og skal engan undra. Airbnb tekur nefnilega einungis til sín 3% af því uppsetta verði sem ferðamaðurinn greiðir, á meðan að hefðbundnar bókunargáttir eins og Booking.com eða HostelWorld taka 12-15% af gjaldinu.

Nokkur gistiheimili og hótel á Austurlandi eru skráð á síðuna, til dæmis Hótel Tangi á Vopnafirði, Hótelíbúðir á Eskifirði, Hótel Bjarg og Stekkholt Guesthouse á Fáskrúðsfirði, Óbyggðasetrið og Laugarfell í Fljótsdalshreppi og Svartholið á Stöðvarfirði, svo eitthvað sé nefnt.
Þá eru fjölmargar eignir í dreifbýli í boði á síðunni, bæði einbýlishús til sveita og mikill fjöldi lítilla sumarhúsa. Augljóst að þeir sem eru að leigja út lítil sumarhús líta á Airbnb sem þægilega gátt til þess.

32 íbúðir í boði í þéttbýli á Austurlandi
Alls voru 32 íbúðir í þéttbýli á Austurlandi í boði á Airbnb þegar blaðamaður Austurfréttar gerði athugun sína. Allir þéttbýliskjarnar Austurlands frá Vopnafirði til Djúpavogs voru skoðaðir og framboðið kom töluvert á óvart.

Flestar voru íbúðirnar á Egilsstöðum og í Fellabæ, alls 15 talsins, 12 á Egilsstöðum og 3 í Fellabæ. Á Seyðisfirði voru fimm íbúðir í útleigu, fjórar á Djúpavogi, þrjár í Neskaupstað og Stöðvarfirði, tvær á Fáskrúðsfirði og ein íbúð var í boði bæði á Reyðarfirði og Eskifirði.

Þessar íbúðir eru af öllum stærðum og gerðum, allt frá stórum einbýlishúsum niður í litlar íbúðir í fjölbýlishúsum eða raðhúsum. Verðið á næturleigu íbúðanna er einnig mjög mismunandi. Ódýrustu íbúðirnar á Austurlandi kosta 70 evrur, um 10.300 kr. nóttin, en við það verð á reyndar eftir að bæta þrifagjaldi sem er ákvarðað af leigusalanum.

Dýrustu húsin kosta töluvert meira og dýrasta gistikostinn á Austurlandi virðist vera að finna í Fellabæ, en þar er hægt að leigja stórt einbýlishús á 344 evrur, eða 50.700 kr., fyrir nóttina. Í því verði er innifalið þrifagjald eigandans og þjónustugjald síðunnar. Algengt verð fyrir næturleigu á íbúðum og húsum á Austurlandi er frá 100-200 evrur nóttin.

Sumir leigja út stök herbergi í húsum sínum
Ekki eru bara heilar íbúðir í boði á Airbnb. Leigusalar geta nefnilega boðið upp á að hýsa ferðamenn í lausum herbergjum í húsum sínum. Slíkt er gert á nokkrum stöðum á Austurlandi. Á Seyðisfirði eru til að mynda þrjú herbergi í boði í sama húsinu og þar lýsa gestir almennt yfir mikilli ánægju sinni með gestrisni leigusalans, sem útbýr morgunmat ofan í gesti sína á hverjum morgni.

Þá eru einnig herbergi til útleigu á Egilsstöðum, Neskaupstað, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi og bætast þau við þá upptalningu sem hér hefur farið fram, á gistirýmum í þéttbýli á Austurlandi sem finna má á Airbnb.

Ljóst er því að ferðamenn geta valið úr ýmsum mismunandi gistikostum á ferð sinni um Austurland og að töluvert margir íbúar á Austurlandi sjá hag sinn í því að leigja út íbúðarhúsnæði til ferðamanna, allavega yfir sumartímann.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.