Horft til heilsulindar: Hallormsstaðaskóli seldur

hallormsstadarskoliSveitarstjórnir Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps hafa samþykkt að selja húsnæði Hallormsstaðaskóla. Kaupandi er 701 hotels ehf., en það félag á og rekur meðal annars Hótel Hallormsstað, Hótel Valaskjálf og veitingastaðinn Salt á Egilsstöðum.

Kaupverð eignanna er 105 milljónir króna sem greiðist að fullu innan árs frá afhendingu eignanna, en stefnt er að því að nýr eigandi taki við þeim 1. nóvember. Eignirnar sem um ræðir er allt húsnæði sem áður hýsti grunnskólann, íþróttahús og sundlaug á staðnum auk 25% eignarhluta sveitarfélaganna í tveimur íbúðum í húsnæði skólans. Ríkissjóður á ennþá 75% hlut í þeim.

Skólabyggingin var reist á árunum 1963-67 og þar var starfræktur grunnskóli í samstarfi þriggja hreppa, Fljótsdalshrepps, Skriðdalshrepps og Vallahrepps. Tveir þeir síðarnefndu sameinuðust síðan öðrum sveitarfélögum, fyrst sem Austur-Hérað en síðar Fljótsdalshérað. Var skólinn þá rekinn í samstarfi tveggja sveitarfélaga þar til í fyrravor að hann var gerður að deild í Egilsstaðaskóla. Nú í vor var síðan tekin ákvörðun um að hætta kennslu á staðnum og í framhaldi að auglýsa húsnæði skólans til sölu.


Framkvæmdir fara strax af stað

Þráinn Lárusson er eigandi 701 hotels ehf., sem staðið hefur í miklum framkvæmdum að undanförnu við Hótel Valaskjálf og stækkun á veitingastaðnum Salt. Er að hans mati ennþá rúm fyrir fjárfestingu í ferðaþjónustu á Austurlandi?

„Já, ég held að það sé alveg til staðar. Á ákveðnum tímapunkti yfir sumarið er að verða hér svolítill flöskuháls. Ég held að það sé alveg kominn tími á að bæta við rúmum 20 herbergjum eins og við erum að gera núna. Reyndar má segja að þetta séu ekki nema kannski rúmlega 12 í viðbót því að við hættum með herbergi í Hússtjórnarskólanum, en þarna koma inn stærri og betri herbergi í þeirra stað."

Þráinn segir að það megi engan tíma missa við að koma húsnæðinu í gagnið. „Við förum strax í nauðsynlegar framkvæmdir. Við verðum að gera það strax á fyrsta vetrinum. Þetta er mikil fjárfesting og við verðum að búa þannig um hnútana að þetta gefi af sér tekjur sem allra fyrst.
Ég hef svona með sjálfum mér skipt þessu verkefni upp í sjö áfanga. Við munum vinna þrjá þeirra í vetur, einn veturinn þar á eftir en hinir eru meira til langs tíma."


Fengu íþróttahús og sundlaug í fangið

En það er ekki aðeins um skólahúsnæði að ræða heldur einnig íþróttahús og sundlaug. Eru einhverjar áætlanir uppi með þær byggingar?

„Það má kannski segja eins og staðan er nú að við séum að fá íþróttahús og sundlaug í fangið. En til framtíðar litið geta falist í þessu tækifæri. Eins og er þá er ekki grundvöllur fyrir heilsársrekstri á Hallormsstað. Markaðssvæðið okkar í því er höfuðborgarsvæðið en það er hryllilega dýrt að fljúga hingað og við erum í samkeppni við ódýrar borgir erlendis.

Ég held samt að Hallormsstaður eigi mikla framtíð sem einhverskonar „resort", staður þar sem fólk kemur og dvelur til aðeins lengri tíma. Það er ekkert launungarmál að við erum að horfa á einhverskonar heilsulind. Ég hef kynnt mér þetta mjög vel, fór m.a. til Indlands til að skoða ákveðna þætti í svona ferðamennsku. En þó að hugmyndin geti verið góð þá er ekki nóg að opna heilsuhótel, það verður að vera markaður fyrir það.

Þessi þjónusta er eitthvað sem við erum að horfa á fyrir vetrartímann. Það er ekki markaður fyrir hana alveg í augnablikinu en ég reikna með að það geti breyst."


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.