Matjurtarækt - Vanmetin auðlind á Austurlandi
Óhætt er að fullyrða að óvíða á landinu er matjurtarækt stunduð í minna mæli en á Austurlandi, enda vantar mikið upp á að slík ræktun í landsfjórðungnum komist nálægt því að uppfylla vaxandi neysluþörf heima fyrir, þó svo að góðar aðstæður til slíkrar framleiðslu séu hér víða fyrir hendi.Þetta er m.a. byggt á allviðamikilli könnun, sem nefnd á vegum umsækjanda gerði á matjurtaþörf matsölustaða í fjórðungnum sl. vor, til að átta sig á tegundum og magni matjurta, sem þá vanhagar helst um.
Meginhluti matjurta eru því aðfluttar með ærnum flutningskostnaði, sumpart frá framleiðendum syðra og/eða erlendis frá með Reykjavík sem uppskipunarhöfn.
Framfarafélag Fljótsdalshéraðs (FF), ásamt nokkrum samstarfsaðilum, sótti um og hlaut nokkurn styrk frá Uppbyggingarsjóði Austurlands í undirbúningsverkefni, sem ber yfirskriftina „Matjurtarækt á Austurlandi," til að kanna áhuga heimaaðila á að hefja slíka ræktun.
Markmið verkefnisins er að stuðla að því að sem flestar matjurtir, sem matsölustaði á Austurlandi, einkum veitingastaði og mötuneyti, vanhagar um, verði ræktaðar í heimahéraði, auk þess að stuðla að aukinni heimaræktun matjurta almennt í hér eystra.
Markmiðinu verði náð með samstilltu átaki umsækjanda og eftirfarandi samstarfsaðila: Gróðrarstöðin Barri ehf í Fellabæ, Búnaðarsamband Austurlands, Sólskógar á Kaldá á Völlum og Hitaveita Egilsstaða og Fella.
Verkefnið byggist að verulegu leyti á nýtingu náttúrugæða í landsfjórðungnum með ræktun, fullvinnslu og markaðssetningu afurða úr héraði í samkeppni við hliðstæð aðflutt aðföng.
Mikilvægt er að undirbyggja vel slíkt frumkvöðlaverkefni, meðal annars í ljósi vaxandi fjölda erlendra ferðamanna. Í því sambandi má nefna að sjóleiðin (Norræna) er opin, auk þess sem beint flug í Egilsstaði erlendis frá, gæti einnig styrkt samkeppnisaðstöðu á þessu sviði hér eystra.
Verkefni þetta útheimtir góðan undirbúning, sem fjallað er um í umsókninni, þótt þau atriði verði ekki tíunduð hér utan þess, sem mestu máli skiptir nú í upphafi, en það er öflug kynning á verkefninu, ásamt hvatningu til að sækja námskeið í faginu, sem boðið verður upp á í kjölfar fundanna. Í því skyni verða haldnir tveir kynningarfundir, annar á Reyðarfirði og hinn á Egilsstöðum, 15. september næstkomandi og fer nánari stað- og tímasetning ásamt dagskrá hér á eftir:
Hótel Tærgesen á Reyðarfirði, klukkan 16:00 og á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum klukkan 20:00.
Dagskrá:
- Inngangsorð verkefnisstjóra Matjurtaverkefnisins
- Kynning á verkefninu út frá eigin hugmyndum og fagþekkingu og kortlagning á fyrirhuguðum námskeiðum í matjurtarækt á Austurlandi. Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður starfs-og endurmenntunardeildar LBHÍ, Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi.
- Viðhorf fulltrúa úr hópi veitingastaða á Austurlandi og væntingar þeirra til verkefnisins, auk þess, sem von er á fróðleik frá fulltrúa frá Sölufélagi Garðyrkjumanna.
- Umræður
Framfarafélag Fljótsdalshéraðs og samstarfsaðilar.