Völundur hlýtur viðurkenningu
Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum hlaut í dag Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra veitti viðurkenninguna í dag í tilefni af degi íslenskrar náttúru. Auk Völundar hlutu hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði sömu viðurkenningu fyrir eljusemi, kraft og áhuga í landgræðslu og skógrækt við erfið ræktarskilyrði.
Í rökstuðningi dómnefndar kemur fram að Völundur hljóti viðurkenninguna fyrir einstakt ræktunarstarf á hálendi Íslands í 640 metra hæð. M.a. hafi honum tekist að fá birki til að þrífast auk um 200 tegunda á svæði sem áður var talið ómögulegt til ræktunar.
Þá hafi Völundur barist fyrir vernd hálendisins og sýnt framsýni í uppbyggingu skála og salernisaðstöðu á fjölförnum leiðum á hálendinu. Hann nýti sér einnig sjálfbæra orkugjafa og hafi með þrautseigju breytt hugmyndum um hvað sé mögulegt í ræktun á hálendi Íslands.
Við sama tilefni voru einnig veitt sérstök fjölmiðlaverðlaun og hlutu þau þættirnir „Lífríkið í sjónum við Ísland“. Í rökstuðningi kemur fram að verkefnið sé „bæði skemmtilegt og fróðlegt og hefur meðal annars sérstöðu að því leyti að það er afrakstur framtaks sem var unnið umfram skyldu, af metnaði og áhuga og aðdáunarverðri seiglu.“
Mynd: Frá vinstri, Elisabeth Hauge, Björn Halldórsson, Sigrún Magnúsdóttir, Völundur Jóhannesson.
Við sama tilefni voru einnig veitt sérstök fjölmiðlaverðlaun og hlutu þau þættirnir „Lífríkið í sjónum við Ísland“. Í rökstuðningi kemur fram að verkefnið sé „bæði skemmtilegt og fróðlegt og hefur meðal annars sérstöðu að því leyti að það er afrakstur framtaks sem var unnið umfram skyldu, af metnaði og áhuga og aðdáunarverðri seiglu.“
Mynd: Frá vinstri, Elisabeth Hauge, Björn Halldórsson, Sigrún Magnúsdóttir, Völundur Jóhannesson.