Alda Hrönn: Skiptir máli að karlar og konur vinni saman að útrýmingu heimilisofbeldis

jafnrettisnefndir egs 0003 webHeimilisofbeldismálum hefur fjölgað í bókum lögreglunnar eftir að skráningu þeirra var breytt. Það skilar líka betri árangri að mati yfirlögfræðings hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

Þetta kom fram í máli Öldu Hrannar Jóhannsdóttur á fundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga á Egilsstöðum fyrir skemmstu. Alda Hrönn vann áður hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum þar sem sérstakt átak var gert gegn heimilisofbeldi og er slíkt átak nú í gangi á höfuðborgarsvæðinu.

Hún sagði að áður hefðu heimilisofbeldismál fengið lítinn framgang þar sem þau hefðu flest verið flokkuð undir aðra brotaflokka. Eftir að skráningunni var breytt hefur málum fjölgað úr 20 upp í 50 á mánuði.

Um leið hefur trú á kerfinu aukist en áður vildu þolendur meðal annars ekki kæra því þeir töldu lögregluna ekki leggja sig fram. Þá skilaði betri árangri að setja blandaðan hóp karla og kvenna í að leiða verkefnið.

Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldisbrot milli tveggja einstaklinga í nánu sambandi. Ekki skiptir máli hvar brotið á sér nákvæmlega stað. Brotin eiga sér flest stað á milli klukkan 18 og 24 á daginn en dreifast nokkuð jafnt yfir daga vikunnar.

Gerendur eru flestir á aldrinum 18-39 ára. Um 80% þeirra eru Íslendingar og hefur hlutfall þeirra heldur hækkað.

Alda segir að nokkrar áherslubreytingar hafi orðið í nálgun á heimilisofbeldismál af hálfu lögreglunnar. Fyrstu viðbrögð séu markvissari, áhersla lögð á að stoppa ítrekuð brot og úrræði eins og nálgunarbann betur nýtt.

Þá er veitt aðstoð við börn sem upplifa ofbeldið en rannsóknir hafa sýnt að það að horfa upp á ofbeldi innan fjölskyldunnar veldur sama framheilaskaða og að upplifa stríð.

Áhersla er lögð á að starfsmaður barnaverndar eða félagsþjónustu mæti með á staðinn þegar lögregla er kölluð til vegna heimilisofbeldis. Það stuðli meðal annars að því að lögregla geti betur einbeitt sér að sínum verkum. Í þetta vantar hins vegar fé frá sveitarfélögum til að tryggja bakvakt félagsþjónustu.

Alda ræddi einnig nýtt ákvæði um heimilisofbeldi sem væri á leið í hegningarlög og taldi það til bóta. Vonbrigði væru hins vegar að ekki væru sett inn sérstök ákvæði til að taka á eltihrellum.

Fleiri lögregluembætti vinna nú að undirbúningi átaka gegn heimilisofbeldi, meðal annars á Austurlandi og hafa mörg austfirsk sveitarfélög tekið vel í að styðja við þá vinnu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar