Páll Björgvin: Ekki verið að fara að loka Egilsbúð

pall bjorgvin gudmundsson 2014 skoriBæjarstjóri Fjarðabyggðar heitir því að leggja fljótt fram tillögur um framtíð reksturs í félagsheimilinu Egilsbúð í Neskaupstað. Síðustu daga hefur verið rætt við hagsmunaaðila í félagslífi bæjarins.

„Staðan er sú að bæjarráð fól mér í nóvember að vinna málið áfram og hef verið að því," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri.

„Ég hef verið að ræða við fólk og stóra hagsmunaaðila Egilsbúðar sem eru grasrótin í samfélaginu, eins og BRJÁN, tónlistarfólk, leikfélagið og fleiri aðila í menningarstarfseminni.

Ég hef einnig rætt við núverandi rekstraraðila um reynslu hans af málum, íbúa og sjálfsögðu bæjarfulltrúana. Ég geri ráð fyrir að taka þessar upplýsingar saman og leggja fram tillögur eins og ég var beðinn um að gera. Ég geri það sennilega mjög fljótt."

Samningur við núverandi aðila veitingarekstursins rennur út um áramót. Margir Norðfirðingar hafa áhyggjur af framtíð hússins verði ekki áfram í því daglegur rekstur eins og veitingasala.

Um 70 manns hafa skrifað nafn sitt á rafrænan undirskriftalista þar sem því er mótmælt að veitingarekstri í Egilsbúð verði hætt. Þess er krafist er að rekstur Egilsbúðar verði boðinn út aftur í óbreyttri mynd.

„Það er ekkert hættulegt að fara að gerast. Það er ekki verið að fara að loka Egilsbúð þótt rekstrarformið kunni að taka breytingum," segir Páll Björgvin.

„Það verður áfram þjónusta í húsinu meðan ekki kemur annað í staðinn, hvað sem verður gert. Aðalmálið er að fá niðurstöðu sem verður góð fyrir samfélagið."

Aðspurður að því hvort ekki hefði verið rétt að fara fyrr stað með útboðsvinnuna en tæpum tveimur mánuðum áður en núgilandi samningur rennur út svarar Páll:

„Það kann að vera en hjá Fjarðabyggð er margt í gangi og hlutirnir taka sinn tíma. Það skiptir öllu máli hvernig þetta verður gert og það verður unnið í samráði við helstu hagsmunaaðila."

Það vakti athygli þegar Páll Björgvin ræddi málið á Facebook-síðu sinni í vikunni en tók færsluna út um sólarhring síðar.

„Ég áttaði mig á að þessi umræða átti ekki heima á persónulegum aðgangi mínum á Facebook. Ég get tekið umræðuna á þeim vettvangi sem ég á að gera og mun gera það þegar að því kemur."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.