57 milljarða fjárfesting í Fjarðabyggð á síðustu fimm árum

Fjárfestingar atvinnufyrirtækja í Fjarðabyggð undanfarin fimm ár nema 57 milljörðum króna. Mest hefur verið fjárfest í sjávarútvegi þar sem skip og vinnslur hafa verið endurnýjaðar.


Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Síldarvinnslan hefur fjárfest fyrir 29 milljarða, þar af eru kaup á útgerðunum Gullbergi á Seyðisfirði, Berg-Huginn í Vestmannaeyjum og aflaheimildum frá Stálskipum í Hafnarfirði metin á 17 milljarða.

Síldarvinnslan hefur keypt tvö ný skip og breytt því þriðja sem þýðir fjárfestingar upp á 8,5 milljarða í skipum. Við bætast 3,5 milljarða fjárfestingar í frystihúsi og verksmiðju.

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði hefur fjárfest fyrir tíu milljarða. Þar hefur verið keyptur tæknibúnaður, byggð frystigeymsla, nýtt Hoffell bættist í flotann og loks línubáturinn Óli á Stað auk veiðiheimilda.

Eskja á Eskifirði hefur fjárfest annað eins en undanfarið ár hefur verið lokið við byggingu nýs uppsjávarfrystihúss og endurnýjun skipanna Aðalsteins Jónssonar og Jóns Kjartanssonar.

Fjárfestingar Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði eru metnar á 6,5 milljarða. Þar fer fremst kersmiðja sem tekin var í notkun 2012. Framkvæmdir við hana hófust 2010 þannig 4,6 milljarða kostnaður við hana dreifðist á þrjú ár. Að auki hefur verið fjárfest í tækjum og endurnýjun búnaðar en áætlað er að Fjarðaál fjárfesti fyrir rúman milljarð í ár.

Blaðið nefnir einnig til sögunnar laxeldi sem Laxar eru byrjaðir á í Reyðarfirði og áforma á Fáskrúðsfirði. Fjárfestingin er þegar komin í 700 milljónir en áætlað er að hún nái þremur milljörðum áður en tekjur fást af eldinu.

Þessu auknu umsvif kalla á uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu en Fjarðabyggð hefur fjárfest fyrir 3,4 milljarða. Má þar meðal annars benda á nýjan leikskóla í Neskaupstað og uppbyggingu hafna um allt sveitarfélagið.

Þótt upptalning blaðsins sé afmörkuð við sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa miklar fjárfestingar verið víðar á Austurlandi. Í byrjun árs opnaði ný uppsjávarvinnsla HB Granda á Vopnafirði auk þess sem sveitarfélagið hefur lagt í talsverðar hafnarframkvæmdir til að geta tekið á móti nýjum skipum félagsins.

Á Djúpavogi hefur Fiskeldi Austfjarða byggt upp eldi. Þá er ótalin uppbygging í ferðaþjónustu víða í fjórðungnum.

Frá byggingu frystihúss Eskju. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar