90% samdráttur í flugi til Egilsstaða
Fjöldi farþega sem fór um Egilsstaðaflugvöll í aprílmánuði var aðeins rétt rúm 10% af þeim fjölda sem fór um völlinn á sama tíma í fyrra. Mikil samdráttur er í flugi út af Covid-19 faraldrinum.Þetta kemur glöggt fram í mánaðartölum Isavia, en félagið birti í dag tölur um flugumferð í aprílmánuði.
Um Egilsstaðaflugvöll fór 731 farþegi, um 11% þeirra sem fóru um völlinn á sama tíma í fyrra. Ferðum fækkaði einnig verulega, voru 272 í fyrra en voru 92 nú, eða þriðjungur af því sem áður var. Minnstur samdráttur var í farmflutningi, 43%.
Fækkun farþega á Egilsstöðum er svipuð hlutfallslega og á öðrum flugvöllum sem þjóna innanlandsflugi. Fjöldi farþega á Keflavíkurflugvelli var aðeins 1% í apríl af því sem hann var fyrir ári.
Þótt Covid-19 faraldurinn hafi sett flug úr skorðum um allan heim þá var samdráttur farþega á Egilsstaðaflugvelli einnig áður en hann skall á af fullum þunga. Í janúar og febrúar var hann um 10% milli ára en í mars fóru um hann tæplega helmingi færri farþegar en í fyrra.
Þegar fyrstu fjórir mánuðir árananna eru bornir saman kemur í ljós að fækkun farþega á Egilsstöðum er tæp 40%, ferðum fækkar um þriðjung og farmur minnkar um fimmtung.
Samdrátturinn á Egilsstöðum er heldur minni en á Akureyri en hins vegar áþekkur því sem hann er á öðrum innanlandsflugvöllum.