Ætlað að styrkja samfélagið í Breiðdal
Íbúasamtök Breiðdals voru stofnuð í gærkvöldi. Þeim er ætlað að efla samfélagið þar eftir sameiningu Breiðdalshrepps við Fjarðabyggð.„Fundurinn í gærkvöldi var mjög góður og ágætlega mætt á hann, miðað við að hann var á mánudegi eftir þorrablót,“ segir Sigurður Borgar Arnaldsson sem sæti á í stjórn samtakanna.
Auk hans voru kosin í stjórnina Elva Bára Indriðadóttir, Benedikt Jónsson, Elís Pétur Elísson og Silja Dögg Sævarsdóttir. Stjórnin er kosin til bráðabrigða til að undirbúa aðalfund í apríl.
Félaginu er ætlað að gæta hagsmuna Breiðdælinga eftir sameiningu við Fjarðabyggð. „Við viljum búa til grundvöll fyrir Breiðdælinga til að hittast og styrkja samfélagið í Breiðdal,“ segir Sigurður Borgar.
Strax á stofnfundinum urðu talsverðar umræður um sorphirðumál í Breiðdal. Ekki gekk að fella Breiðdal inn í sorphirðu samning Fjarðabyggðar og því sér sveitarfélagið sjálft um sorphirðuna á svæðinu.
Sigurður Borgar segir Breiðdælinga hafa leitað svara á hvernig sorphirðumálum yrði háttað út árið og fengið ágæt svör frá starfsmanni Fjarðabyggðar sem hafi útskýrt stöðuna vel.