Áfangastaðaáætlunin skynsamlegt og lifandi plagg

Út er komin áfangastaðaáætlun fyrir Austurland en markmið hennar er að stuðla að ábyrgri ferðaþjónustu sem skilar sem mestum ávinningi til samfélaga og um leið að draga úr neikvæðum áhrifum.



Það er Austurbrú sem stendur að verkefninu í samstarfi við Ferðamálastofu og er það framhald af vinnu síðustu fjögurra ára í verkefninu Áfangastaðurinn Austurland.

„Farið var í þessa vegferð á landsvísu, að gera áfangastaðaáætlanir. Síðastliðin þrjú ár hefur verið unnið að slíkri áætlun á Austurlandi í tengslum við verkefnið Áfangastaðurinn Austurland þannig að okkar áætlun er mjög víðtæk og umfangsmikil. Með áfangastaðaáætlun fyrir svæðið verður til heildræn stefna unnin á forsendum þess sem eflir bæði samstöðu og slagkraft út á við,“ segir María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Áætlunin hefur vakið athygli erlendis
Fjölmargir hafa komið að vinnunni, en hátt í tvö hundruð aðilar hafa mætt á vinnustofur og fundi sem haldnir hafa verið í tengslum við verkefnið og hefur verið haft gott samráð við sveitarfélög í landshlutanum frá upphafi. Áætlunin er unnin á ensku þar sem annar verkefnastjóranna er sænski áfangastaðahönnuðurinn Daniel Byström. María segir verkefnið hafa vakið mikla athygli erlendis og verið notað sem fyrirmynd fyrir áfangastaði í öðrum löndum.

Aðkoma íbúa skiptir máli
„Áætlanirnar eru mismunandi eftir landshlutum en draga þó allar fram stöðuna á hverju svæði fyrir sig, hvaða áherslur eru ríkjandi og til hvaða aðgerða þarf helst að grípa á hverju og einu þeirra. Okkar áætlun snýr helst að ferðaþjónustunni en samt sem áður áttuðum við okkur fjótt á því hve miklu máli íbúar svæðisins skipta og þess vegna gerum við einnig rannsóknir sem tengjast þeim, til dæmis þar sem við skoðum þolmörk í tengslum við ferðaþjónustu og hvar við þurfum helst að einbeita okkur. Við sáum til dæmis að lítil þolinmæði er fyrir „camper bílunum“ sem voru út um allt, en þar áttum við ákveðin verkfæri til þess að grípa til aðgerða sem voru þó í takt við ímyndina sem við vildum hafa. Við viljum ekki setja upp risastór skilti sem á stendur „Bannað að leggja“, heldur viljum við að skilaboðin falli inn í náttúruna og séu á sama tíma vinsamleg. Einnig höfum við útbúið blöð fyrir íbúa þar sem vandamálið er viðvarandi, þannig að þeir hafi áhrif á þróun ferðaþjónustu og hvernig við viljum að komið sé fram við ferðafólk,“ segir María.


Góðar leiðbeiningar fyrir ferðaþjónustuaðila
María segir áætlunina vera gott tól fyrir þá sem eru í ferðaþjóunstu. „Um er að ræða ákveðna framtíðarsýn eða möntru um það hvernig við viljum vera sem áfangastaður, en á bak við verkefnið er mikið af verkfærum sem okkar samstarfaðilar hafa aðgang að. Hvernig tölum við um svæðið við okkar gesti? Hvernig myndir tökum við fyrir okkar fyrirtæki til þess að sýna Austurland? Við viljum sýna ábyrga ferðahegðun og pössum upp á lög og reglur. Við viljum sýna fallega náttúru. Þessar leiðbeiningar eru góðar fyrir þá ferðaþjónustuaðila sem hafa kannski ekki tök á því að ráða markaðsstjóra, ljósmyndara eða annað; að þeir geti þá nýtt sér þessi verkfæri.“

Gestrisni, þolinmæði og jákvæðni á Austurlandi
María segir áætlunina einnig snúa að ríkisvaldinu, fjármagni og slíkum þáttum. „Við pössum að allar þær aðgerðir sem við drögum fram í áætluninni snúist um það sem við getum gert, í stað þess að krefjast aðgerða varðandi þætti sem ekki eru á okkar valdi. Við horfum á það sem við getum gert og erum með raunhæf markmið sem við getum unnið að. Auðvitað bendum við á ef samgöngum er ábótavant að vinsælum ferðamannastöðum og slíkt, en setjum úrbætur ekki á okkar aðgerðaáætlun.

Aðrar atvinnugreinar en ferðaþjónusta hafa verið ríkjandi á Austurlandi, en menning og ferðaþjónusta skipta svo miklu máli. Ef við bætum ekki við fjölda gesta inn á svæðið geta afþreyingarmöguleikarnir ekki vaxið samhliða. Það er erfiðara fyrir okkur að koma einhverju á hér og fá fjárfesta með okkur í lið, svo langt frá höfuðborgarsvæðinu. Við sem komum að ferðaþjónustu á Austurlandi stöndum þó mjög þétt saman, fyrirtækin vinna saman og tala vel hvert um annað. Þetta hefur skilað sér í jákvæðri upplifun ferðafólks sem upplifir gestrisni, þolinmæði og jákvæðni á Austurlandi.“

María segir að þó svo enn vanti upp á fjölda gesta á svæðið á ársvísu hafi skýrslan meðal annars verið unnin til þess að hafa áhrif á stýringu gesta. „Ef við förum að fá mikið af gestum inn á svæðið ráðum við við það svo framarlega sem verkfærin okkar séu í góðu lagi; að við séum í góðu samstarfi við íbúana og sveitarfélögin. Áfangastaðaáætlunin er skynsamlegt og lifandi plagg sem sífellt er verið að uppfæra. Við vinnum að því að varpa ljósi á það upp á hvað fjórðungurinn hefur að bjóða og að hverju ferðamennirnir eru að leita. Með því að svara þeim spurningum eru meiri líkur á því að ferðamenn upplifi sig á réttum stað og beri út gott orð um okkur.“

Ljósmynd: Rhombie Sandoval

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.