Afar flókið verk að leita í sjó
Leitarflokkar fínkemba nú svæði í Vopnafirði í leit að skipverja af fiskiskipi sem talinn er hafa fallið útbyrðis þegar skipið var á leið til hafnar í gærmorgun. Leitað er út frá ákveðnum punkti en ýmislegt getur haft áhrif á leitina.„Við erum að fínkemba svæðin sem við höfum sett út. Við leitum fjörurnar oftar ein einu sinni, bæði af landi og sjó. Við fínkembum fjörðinn líka með stærri bátum,“ segir Óskar Þór Guðmundsson, vettvangsstjóri lögreglunnar.
Mannsins hefur verið saknað frá því klukkan tvö í gær. Leitað var í myrkur í gærkvöldi og var farið aftur af stað í morgun. Alls taka tæplega 200 manns í leitinni frá björgunarsveitum af öllu Austurlandi og norður um að Húsavík.
Leitarsvæðið nær yfir allan Vopnafjörð, frá Bjarnarey í austri að Strandhöfn í norðri og inn í Sandvík. Þrjú björgunarskip ásamt hátt í 20 minni bátum og sjóköttum hafa í morgun siglt inn og út fjörðinn í breiðfylkingu. Flugvél Landhelgisgæslunnar, sem búin er fullkomnum myndarvélabúnaði, bættist við rétt fyrir hádegi og hefur sveimað yfir firðinum síðan. Þá eru flokkar meðfram ströndinni á göngu og fjórhjólum. Aðstæður eru næstum eins góðar og kostur er, hægur vindur, sólríkt og hlýtt.
Óskar Þór segir leitarfólk hafa ákveðna vísbendingu sem leitað sé út frá. „Við vinnum út frá ákveðinni staðsetningu, fenginni með símagögnum, þar sem við teljum líklegast að viðkomandi hafi lent í sjóinn – hafi hann gert það.“
Leit í sjó er hins vegar afar snúið verkefni. „Það er margt sem hefur áhrif á hvernig gengur að finna fólk sem fellur í sjó: hafstraumar, vindur, sumir fljóta en aðrir sökkva auk þess sem það er erfitt að finna fólk sem marar í hálfu kafi. Að leita á svona hafsvæði er ekki auðvelt verkefni,“ segir hann.
Þökk sé tækninni er leit sem þessi auðveldari en hún var fyrir aðeins nokkrum árum síðan. Staðsetningartæki eru á bæði fólki og farartækjum sem senda upplýsingar til stjórnstöðvar sem þannig getur séð hvaða svæði er búið að kemba. „Þetta eru allt aðrar aðstæður heldur en fyrir nokkrum árum og leitin því mikið markvissari.“
Aðspurður segir Óskar engar nýjar upplýsingar hafa komið fram sem hafi áhrif á skipulag leitarinnar. „Við leitum ekki bara til að leita heldur þar til við erum ánægð með þekjuna. Síðan tökum við stöðuna í lok dags þegar við höfum leitað hvert svæði að minnsta kosti tvisvar.“