AFL: Byggðastefna ríkisins einkennist af kjördæmapoti

afl.gifFélagsmenn í AFLi Starfsgreinafélagi lýsa aðgerðum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum sem tilviljanakenndum og þær einkennist af kjördæmapoti. Þeir telja verkalýðshreyfinguna þann aðila sem best sé treystandi til þess að stýra upplýstri umræðu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þeir vilja klára viðræðurnar og kjósa um aðild.

 

Þetta kemur fram í ályktun frá kjaramálaráðstefnu félagsins um seinustu helgi þar sem Evrópusambandið var í brennidepli.

„Svo virðist sem landlæg fólksfækkun sé regla frekar en undantekning á tilteknum landssvæðum og aðgerðir ríkisvaldsins séu í besta falli tilviljanakenndar og einkennist af kjördæmapoti og fyrirgreiðslu við hefðbundin fyrirtæki sem reyna að halda uppi fiskvinnslu í kvótalausum þorpum,“ segir í ályktunni.

Kallað er eftir „markvissri byggðastefnu“ sem miði að því að auka fjölbreytni í atvinnulífi, örvi nýsköpun og „stuðla að atvinnu sem byggir á tækni og þróun til viðbótar við  hefðbundnar atvinnugreinar – þar sem hagræðing og tæknivæðing fækkar sífellt störfum.

Hvort sem af aðild Íslands að Evrópusambandinu verður eða ekki er ljóst að án markvissra aðgerða til að styðja við sjálfbæra þróun á landsbyggðinni blasir ekkert annað við víða um land en áframhaldandi fólksflótti, einhæfara atvinnulíf og annars flokks þjónustustig heilbrigðis-og menntamála.“

Í ályktunni er því einnig lýst að ljúka eigi aðildarviðræðum við Evrópusambandið, leyfa þjóðinni að kynna sér samninginn og taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikil vægt sé að verkalýðshreyfingin taki forustu í upplýsandi umræðu um aðildarviðræður við ESB, einkum þær sem snúi að launafólki.

Minnt er á að enn séu verulega skiptar skoðanir um aðildina innan verkalýðshreyfingarinnar. Því eigi einstök verkalýðsfélög ekki að taka virkan þátt í baráttu fyrir eða gegn aðild heldur leiða málefnalega umræðu.

Lýst er áhyggjum af bágri stöðu krónunnar sem rýri kjör launafólks. Núverandi stöðu efnahagsmála megi rekja til „vanhæfni stjórnvalda síðustu áratuga.“

Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru leysi ekki sjálfkrafa öll vandamál. Það verði þjóðin að gera sjálf þótt nýr gjaldmiðill geti falið í sér ýmis tækifæri sem og hættur.

Kallað er eftir að umræða um Evrópusambandið fari fram á „mannamáli“ en ekki „tæknimáli“ eða „tilfinningagrunni“ þar sem ýmist sé alið á „þjóðernishroka eða gagnrýnislausri aðdáun a´því sem erlent er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.