Lögreglan telur árás með járnkarli hafa verið tilraun til manndráps
Lögreglustjórinn á Austurlandi telur að árás karlmanns gegn fyrrum sambýliskonu sinni á Vopnafirði hafi verið sérlega alvarleg og konan hafi lifað hana af. Landsréttur heimilaði manninum að taka út hluta gæsluvarðhaldsins á geðdeild.Upphaflegur úrskurður Landsréttar hefur verið birtur eftir að gæsluvarðhaldið var í gær framlengt til 11. desember. Í honum má meðal annars finn rökstuðning lögreglu fyrir því hvers vegna farið var fram á gæsluvarðhald í fyrstu og framvindu málsins.
Árásin átti sér stað um klukkan síðdegis miðvikudaginn 16. október. Konan var flutt á Sjúkrahúsið á Akureyri (SAk) en maðurinn handtekinn á staðnum, síðan sleppt en yfirheyrður aftur daginn eftir. Hann viðurkenndi að hafa ráðist alvarlega að konunni en bar að miklu leyti við minnisleysi. Hann hafi strax lýst andlegum veikindum.
Föstudaginn 18. október birti DV lýsingar á atburðinum, byggðar á lýsingum aðila sem tengdist konunni. Seinni part þess dags fékk lögreglan á Austurlandi skýrslu sem lögreglan á Norðurlandi eystra tók af konunni á (SAk) sem og áverkavottorð læknis. Um kvöldið var maðurinn handtekinn aftur og daginn eftir farið fram á gæsluvarðhald, sem Héraðsdómur Austurlands féllst á. Í greinargerð lögreglunnar segir að við rannsókn málsins hafi komið í ljós að árásin væri alvarlegri en fyrst var talið.
Fór strax fram á vistun á heilbrigðisstofnun
Maðurinn skaut málinu strax til Landsréttar, en bað ekki um að gæsluvarðhaldsúrskurðinum yrði snúið heldur breytt í vistun á sjúkrahúsi eða viðeigandi stofnun. Slíkt mun nokkuð fátítt í íslenskum sakamálum, eftir því sem Austurfrétt kemst næst. Mánudaginn 21. október var maðurinn fluttur á geðdeild vegna sjálfsvígshættu fyrir Landsrétti var lögð fram greinargerð sérfræðilæknis um að æskilegt væri að maðurinn dveldi þar næstu daga. Á það féllst Landréttur miðvikudaginn 24. október.
Lögreglan á Austurlandi lagði fram þrjár ástæður fyrir því að maðurinn ætti að vera dæmdur í gæsluvarðhald. Í fyrsta lagi var rannsókn málsins þá ekki langt á komin, heldur enn verið að rannsaka vettvang og taka skýrslur af vitnum. Maðurinn gæti því spillt rannsóknargögnum gengi hann lausn. Á þessa ástæðu féllst Héraðsdómur.
Önnur ástæðan var að maðurinn væri hættulegur öðrum í kring. Lögreglan telur fram að til rannsóknar séu fleiri meint brot mannsins, annars vegar gegn konunni skráð fyrr á þessu ári en líka gegn öðrum einstaklingi skráð í fyrra. Lögreglustjórinn telur hættu á að ofbeldi mannsins sé að stigmagnast. Þá er bent á að parið fyrrverandi hafi búið nærri hvort öðru. Héraðsdómur taldi þetta atriði ekki nógu vel rökstutt til að hann féllist á það á þessari stundu.
Hættulegu verkfæri beint að hálsi
Í þriðja lagi telur lögreglan að maðurinn sé sekur um tilraun til manndráps eða til vara stórfellda líkamsárás. Refsing fyrir manndráp er að lágmarki fimm ára fangelsi, en getur verið ævilangt. Stórfelldar líkamsárásir varða allt að 16 ára fangelsi. Samkvæmt hegningarlögun telst ásetningur um að vinna slíkt verk tilraun til þess. Fyrir það má þó dæma vægari refsingu, teljist viljinn takmarkaður eða gerandi ekki hættulegur og jafnvel fella niður ef tilraunin gat ekki leitt til fullframins brots. Á móti má halda mönnum í gæsluvarðhaldi teljist brot þeirra varða meira en 10 ára fangelsi.
Í skýrslunni brotaþola er haft eftir konunni að maðurinn hafi veist að henni með orðum um að hann ætlaði að drepa hana. Hann hafi lagt til hennar með rúllubaggateini, litlum járnkarli, reynt að stinga hana í kvið og svo ætlað kyrkja hana. Konan lenti í öndunarörðugleikum og samkvæmt skýrslu læknir eru á henni miklir sjáanlegir áverkar, meðal annars á hálsi. Þessir áverkar séu alvarlegir.
Í greinargerð lögreglu segir að áverkavottorðið styðji frásögn konunnar. Notað hafi verið sérlega hættulegt verkfæri og því beint að hálsi. Þess vegna sé hending að ekki hafi farið verr og bani hlotist af. Aðferðin og ásetningurinn gefi tilefni til að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt gegn frekari brotum fyrir utan að óverjanlegt sé að maðurinn gangi laus, grunaður um svo alvarleg brot. Héraðsdómur Austurlands taldi þó á þessum tímapunkti ekki nægilega rökstutt að brotið varðaði meira en 10 ára fangelsi.
Það breytti þó engu um að dómurinn féllst á kröfu um varðhaldið. Þótt það teldi ástand mannsins ekki fullnægja að hann yrði vistaður annars staðar í fangelsi þá er í úrskurðinum lagt að Fangelsismálastofnun að gæta sérstaklega að andlegri heilsu hans. RÚV greindi svo frá því í morgun að maðurinn væri nú í varðhaldi í fangelsi til 11. desember.