Áhyggjur af hraðakstri í byrjun sumars
Lögreglan á Austurlandi hefur áhyggjur af auknum hraðaakstri í byrjun júní. Umferðarlagabrotum fjölgaði um 65% fyrstu daga júní miðað við sama tímabil síðustu fimm ár.Skráð hafa verið tíu umferðarslys fyrstu fimm mánuði ársins, eða jafn mörg á sama tíma og í fyrra. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að það sé ásættanleg staða miðað við meðalfjölda skráðra slysa árin 2015-19, sem voru 52 slys á ári.
Fjölgun skráðra umferðarlagabrota það sem af er júní sé hins vegar áhyggjuefni. Þeim fjölgar um 65% miðað við meðaltal áranna 2015-19, úr 46 brotum að meðaltali í 76. Flest brotanna tengjast hraðakstri.
Varhugavert sé að alhæfa út frá svo stuttu tímabili og erfitt að segja hvort um hvort ástæðan sé aðgæsluleysi ökumanna, eða aukið eftirlit lögreglu, sem sé í samræmi við stefnu hennar og markmið um fækkun slysa.
Lögregla hvetur því ökumenn, nú í byrjun sumars, til varkárni í hvívetna. Þannig megi komast hjá afskiptum lögreglu og ekki síst koma í veg fyrir slys sem sé hið sameiginlega verkefni og markmið allra.
Þá eru þeir bíleigendur, sem enn eiga eftir að taka nagladekkin undan, til að nýta helgina vel. Byrjað verður að sekta fyrir slík brot frá og með næsta mánudegi, 15. júní.