Áhyggjur af hröfnum á jarðgerðarsvæðinu

Íbúar á Reyðarfirði hafa kvartað undan fjölgun fugla sem sækja í lífrænan úrgang á svæði Íslenska gámafélagsins þar. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands (HAUST) segir hrafnana hafa fundið sér leið í gegnum þær varnir sem tilgreindar voru í starfsleyfi.

„Í starfsleyfinu er krafa um að úrgangurinn verði hulinn með kurli en krummi er snjall og tínir ofan af eða finnur sér leið í gegn að ætinu,“ segir Leifur Þorkelsson, framkvæmdastjóri HAUST.

Í síðustu fundargerð HAUST er bókað að nýlega hafi borist kvartanir vegna fjölgunar fugla á svæðinu og brýnt sé að sporna við því að fuglar safnist þar saman. „Okkur hafa meðal annars borist kvartanir frá bændum í nágrenninu sem eru hræddir um lömb auk þess sem hrafninn skemmir rúllu,“ segir Leifur.

Málefni jarðgerðarinnar hafa reglulega verið á dagskrá funda HAUST. Á fundinum var bókað að heilbrigðisnefndin hefði áhyggjur af umfangi kvartana vegna jarðgerðarinnar og fyrirtækið hvatt til þess að haga starfsemi sinni í skilyrði við starfsleyfið.

Íslenska gámafélagið fékk upphaflega leyfi til jarðgerðar á Reyðarfirði í árslok 2017. Hluti íbúa lagðist strax gegn rekstrinum, meðal annars þar sem lyktarmengun legðist yfir íbúabyggðina. Útgáfa starfsleyfisins var kærð og felld úr gildi í apríl í fyrra þar sem athugasemdaréttur hafði ekki verið virtur til fulls.

Nýtt starfsleyfi var gefið út í byrjun maí í fyrra, en aðeins til fjögurra ára. Aftur var það kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, bæði vegna málsmeðferðar og þess að ekki hefði verið gerð krafa um bestu mögulegu tækni. Úrskurðarnefndin féllst ekki á málsrökin og taldi ekki ástæðu til að fella starfsleyfið úr gildi.

Leifur segir starfsmenn HAUST hafa farið reglulega í eftirlitsferðir á starfssvæðið og gert misalvarlegar athugasemdir við starfsemina. Í desember var Íslenska gámafélagið áminnt fyrir brota á starfsleyfi.

Enn er beðið viðbragða fyrirtækisins vegna athugasemda sem gerðar voru í eftirlitsferð um miðjan maí. Leifur segir að mestu leyti hafi verið brugðist við þeim athugasemdum sem gerðar hafi verið síðustu mánuði. Sem dæmi um það sé að langt sé síðan síðustu bárust kvartanir undan ólykt frá svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.