Ákærður fyrir að keyra vörubíl undir áhrifum kannabis
Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur ákært karlmann á fertugsaldri fyrir að keyra 14 tonna vöruflutningabifreið undir áhrifum kannabisefna.
Maðurinn var stöðvaður í lok júní í fyrra á móts við gatnamótin þar sem beygt er frá Reyðarfirði í austur í áttina að Fáskrúðsfirði á tæplega 14 tonna vöruflutningabifreið af gerðinni Man T-40.
Blóðsýni leiddi í ljós að magn kannabisefna í blóði hans var 4,8 nanógrömm í millilítra.
Að auki er maðurinn ákærður fyrir að hafa vanrækt að ganga úr skugga um að ökuriti bifreiðarinnar ynni rétt og skráði réttar upplýsingar um hraða hennar sem og aksturs- og hvíldartíma ökumanns.
Farið er fram á að maðurinn verði dæmdur til sviptingar ökuréttar og greiðslu alls sakarkostnaðar.