Birgir leiðir VA út skólaárið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. des 2024 14:35 • Uppfært 16. des 2024 14:35
Birgir Jónsson hefur verið settur skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands út skólaárið. Eydís Ásbjörnsdóttir, sem verið hefur skólameistari síðustu tvö ár, var í lok nóvember kjörin á Alþingi.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef skólans. Birgir var fyrr á þessu ári skipaður aðstoðarskólameistari skólans en hann starfað við skólann frá árinu 2019, bæði sem stjórnandi og kennari.
Hann var áður skólastjóri Grunnskóla Eskifjarðar frá 2017-19, upplýsingafulltrúi Fjarðabyggðar það ár og þar áður kennari við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ í sex ár.
Eydís skipaði annað sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum sem fram fóru 30. nóvember síðastliðinn. Hún hafði áður starfað árum saman sem kennari við skólann.