Fjórðu hæstu heildartekjurnar í Fjarðabyggð

Íbúar í Fjarðabyggð eru með fjórðu hæstu heildartekjurnar á landsvísu þegar laun eru sundurliðuð eftir sveitarfélögum. Laun í öðrum austfirskum sveitarfélögum eru undir landsmeðaltali, og með allra lægsta móti í Fljótsdalshrepp. Þar eru hins vegar fjármagnstekjur með því hæsta á landsvísu.

Þetta kemur fram í gögnum Hagstofu Íslands, sem byggja á skattframtölum landsmanna fyrir árið 2023. Þegar horft er í miðgildi, það er algengustu meðallaun, þá er Fjarðabyggð í fimmta sæti á landsvísu með 8.100 þúsund krónur á ári. Það er hækkun upp á 4,7% á milli ára.

Röðin breytist er horft er til hreinna meðaltekna. Þær eru að þessu sinni hæstar í Vestmannaeyjum, 13.955 þúsund á mann. Næst hæstu meðaltekjurnar eru á Seltjarnarnesi, 12.688 þúsund á mann, í Garðabæ 11.466 þúsund en síðan kemur Fjarðabyggð með 10.248 þúsund. Fjarðabyggð var í fyrra í sjöunda sæti listans með 9.381 þúsund, en hækkunin nemur 9,3%.

Samdráttur í Fljótsdal


Tekjurnar í Fjarðabyggð eru töluvert hærri en í öðrum austfirskum sveitarfélögum. Miðgildið á Vopnafirði er 7.258 þúsund á mann, í Múlaþingi 7.113 þúsund og í Fljótsdal 5.749 þúsund. Reyndar er það svo að Fljótsdalshreppur er í þriðja neðsta sæti listans með 5.749, eitt þriggja sem eru undir 6.000. Fljótsdalshreppur er eitt fárra sveitarfélaga þar sem miðgildið lækkar, það var 6.163 þar í fyrra svo samdrátturinn nemur rúmum 7%.

Sé horft til meðaltekna þá eru þær 8.749 þúsund á Vopnafirði, 8.340 þúsund í Múlaþingi og 6.775 í Fljótsdal. Hreppurinn er áfram þriðji neðstur. Landsmeðaltalið er 9.229 þúsund á mann.

Hæstu atvinnutekjurnar


Á einum stað í samantekt Hagstofunnar er Fjarðabyggð á toppnum. Þar eru hæstu atvinnutekjur að meðaltali á hvern íbúa eða 7.822 þúsund. Seltjarnarnes er næst með 7.740 þúsund. Landsmeðaltalið er 6.362 þúsund. Hin austfirsku sveitarfélögin eru undir því. Vopnafjörður er með 6.101 þúsund, Múlaþing 5.832 og Fljótsdalur með 5.023.

Fjármagnstekjur í Fljótsdal


Röðin gerbreytist þegar komið er að fjármagnstekjum, en þær byggjast á vaxtatekjum, arði, söluhagnaði, leigutekjum utan rekstrar og eftir atvikum höfundarréttargreiðslum.

Þegar raðað er eftir meðaltali eru Vestmannaeyjar hæstar með 5.036. Í öðru sæti er Árneshreppur á Ströndum, sem vanalega er við botn listans. Þar eru fjármagnstekjurnar að meðaltali 3.013 þúsund á mann. Seltjarnarnes nær ekki þriggja milljóna múrnum og er í þriðja sæti.

Fara þarf niður undir fertugasta sætið til að finna austfirsku sveitarfélögin. Fjarðabyggð er númer 38 á lista með 761 þúsund, Múlaþing er tveimur sætum neðar með 755 þúsund, Vopnafjarðarhreppur er næstur með 755 þúsund og loks er Fljótsdalur í 47. sæti með 687 þúsund. Landsmeðaltalið er 990 þúsund og sveitarfélögin eru 64 á listanum.

Staðan verður enn skrautlegri þegar raðað er eftir miðgildi fjármagnstekna þar sem Árneshreppur er skyndilega orðinn efstur með 375 þúsund, Tjörneshreppur annar með 311 þúsund og síðan Fljótsdalshreppur þriðji með 244 þúsund. Seltjarnarnes er fjórða með 199 þúsund. Vopnafjarðarhreppur er í sjöunda sæti með 158 þúsund. Í Múlaþingi er miðgildið 98 þúsund, en 87 þúsund í Fjarðabyggð. Landsmeðaltalið er 81 þúsund.

Fjarðabyggð í efri hlutanum með ráðstöfunartekjur


Að lokum má skoða ráðstöfunartekjur sem eru skilgreindar sem tekjur einstaklinga að frádregnum sköttum og beinum opinberum gjöldum. Meðalráðstöfunartekjur eru hæstar í Vestmannaeyjum, 11.230 þúsund, 9.329 þúsund á Seltjarnarnesi og 8.338 í Garðabæ. Síðan koma Stykkishólmur og Eyjafjarðarsveit, áður en röðin kemur að Fjarðabyggð með 7.332 þúsund. Á Vopnafirði eru þær 6.457 þúsund, 6.261 í Múlaþingi og 5.258 í Fljótsdal, sem heldur aðeins Tjörneshreppi og Skagabyggð fyrir neðan sig. Landsmeðaltalið er 6.819 þúsund.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.