Alcoa vill stækka álverið á Reyðarfirði: Aukin orka úr Kárahnjúkavirkjun
Alcoa Fjarðaál á í viðræðu við Landsvirkjun um kaup á orku fyrir hugsanlega stækkun álversins í Reyðarfirði. Allt að tvö hundruð manns gætu fengið vinnu við stækkunina sem yrði upp á 40 þúsund tonn.
Þetta staðfestir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa, í samtali við Morgunblaðið í dag. Gert er ráð fyrir að stækkun upp á 40 þúsund tonn skapi 50 störf á ári til frambúðar. Fjárfestingin yrði upp á 20-25 milljarða króna og 150-200 manns fengju vinnu við stækkunina á framkvæmdatímanum.
Þreifingar hafa verið við Landsvirkjun um kaup á raforku en áætlað er að fyrirtækið þurfi um 40 megavött í viðbót. Hörður Arnarson, forstjóri Landvirkjunar, segir að unnið sé í að auka raforkuframleiðsluna á Kárahnjúkasvæðinu.
„Við erum að vinna í því að klára ákveðin verkefni uppi í Kárahnjúkum, Sauðárveitu og fleira, sem ráðist var í í sumar og verða kláruð á næsta ári.“