Allt ljósleiðaratengt á Seyðis- og Borgarfirði á næsta ári

Gangi áætlanir eftir ættu öll heimili og vinnustaðir á bæði Seyðisfirði og Borgarfirði eystra að vera orðin ljósleiðaratengd eigi síðar en í lok næsta árs. Sömuleiðis á að ljúka ljósleiðaravæðingu Djúpavogs 2026.

Þetta er meðal þeirra upplýsinga sem finnast í drögum að allra fyrstu þjónustustefnu sem Múlaþing er að setja sér í byggðum og byggðarlögum sveitarfélagsins.

Stefnan er enn í vinnslu og gæti tekið breytingum áður en hún verður samþykkt en fyrir utan nákvæma útlistun á þjónustu sveitarfélagsins í hverju byggðarlagi er þar að finna grófar áætlanir um frekari skref fram á við í þjónustu á allra næstu árum.

Dótturfyrirtæki Múlaþings, HEF-veitur, hefur nú þegar ljósleiðaratengt allt dreifbýli á Fljótsdalshéraði. Sömuleiðis hefur allt dreifbýli Seyðisfjarðar og Borgarfjarðar eystra fengið tengingar og undanfarið hefur verið unnið að lögbýlatengingum við utanverðan Berufjörð, í Hamarsfirði og Álftafirði.

Fyrirtækin Míla og Austurljós sjá um að ljósleiðaratengja þéttbýlið á Seyðisfirði og þeirri vinnu á að ljúka á komandi ári. Míla hefur þegar hafið tengingar í þéttbýlinu á Borgarfirði eystra og fáein hús þegar tengst kerfinu.

Það líka Austurljós sem tekur að sér að ljósleiðaravæða þéttbýli Djúpavogs en þar er enginn tengdur enn sem komið er. Gera menn ráð fyrir að þar verði úr bætt að fullu árið 2026.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.